Hulunni var svipt af nýju reiðhjóli, sem framleitt er úr endurunnu plasti, á iðnaðarsýningunni í þýsku borginni Hannover í vikunni. Reiðhjólið er framleitt af þýska fyrirtækinu Igus.
Ekki einungis er stellið úr plasti heldur allir íhlutir, allt frá gírum til tannhjóls. Prófanir á nýja reiðhjólinu standa enn yfir en samkvæmt Igus er stefnt að því að hefja framleiðslu á hjólunum í lok ársins og munu þau kosta um 1.400 evrur eða um 190 þúsund krónur.
Frank Blase, stjórnarformaður Igus, fékk hugmyndina þegar hann var á ferðalagi niður við strönd. Þar ræddi hann við forsvarsmenn hjólaleiga, sem sögðust þurfa að skipta um reiðhjól á allt að þriggja mánaða fresti. Ástæðan er sú að við ströndina er salt, sandur og vindur og hjólin ryðga því frekar fljótt. Plast ryðgar auðvitað ekki og því verður hægt að skilja reiðhjólið frá Igus eftir utandyra hvernig sem viðrar.
Í staðinn fyrir að sækja um einkaleyfi á hönnuninni mun Igus heimila öðrum reiðhjólaframleiðendum að styðjast við hana og þróa þannig sjálfir umhverfisvæn plasthjól.
Igus er þýskt tæknifyrirtæki, sem stofnað var árið 1964 og er með höfuðstöðvar í Köln. Fyrirtækið hefur stækkað mikið undanfarin tíu ár og í dag starfa um 4.200 manns hjá því.