Hollenski bjórframleiðandinn Heineken hefur lækkað afkomuspá sína fyrir þetta ár. Búist var við að vöxtur rekstrarhagnaðar yrði allt að 9% á árinu en þess í stað er nú gert ráð fyrir að hann verði kringum 5%. Ástæðan fyrir þessu er minni sala á fyrri helming ársins.
Á fyrsta fjórðungi féll sala um 5,4% og 7,6% á öðrum fjórðungi. Minni sala er fyrst og fremst rakin til verðhækkana. Heineken, sem er stærsti bjórframleiðandi heims, hefur líkt og aðrir framleiðendur hækkað verð til þess að mæta vaxandi kostnaði. Þetta hefur leitt til minni sölu þó ekki sé vitað hvort drykkjan hafi minnkað.
Sérfræðingar sem Financial Times ræddi við segja minnkandi sölu til marks um að stjórnendur Heineken hafi ofmetið markaðsafl fyrirtækisins. Þá hefur efnahagsástand á mikilvægum mörkuðum í Asíu leitt til minni sölu.