Agustín Carstens forstöðumaður Alþjóðagreiðslubankans (e. Bank for International Settlements) segir megintilefni þróunar seðlabankarafeyris vera það að þeir seðlabankapeningar sem almenningur hefur aðgang að í dag – seðlar og mynt – standist einfaldlega ekki kröfur notenda lengur.
Í hópviðtali við fjóra blaðamenn frá fjórum Norðurlandanna, þar á meðal undirritaðan, bendir Carstens á þegar talið berst að þörfinni á seðlabankarafeyri að grundvallarhlutverk seðlabanka og helsta framlag þeirra til samfélagsins sé að tryggja traust á peningakerfinu, og þar með peningunum sjálfum.
Sjá einnig: Gæti valdið útskiptingu krónunnar
Þetta hafi seðlabankar í gegnum tíðina gert með útgáfu seðla og myntar sem myndi undirstöðu fjármálakerfisins alls, en efnislegt form þeirra sé komið vel til ára sinna og farið að finna fyrir aldrinum á tímum alltumlykjandi tækni og tengingar hennar við umheiminn.
„Almenningur hefur ekki aðgang að innlánsreikningum hjá seðlabönkum, og reiðufé eitt og sér stenst einfaldlega ekki lengur kröfur nútímasamfélags um beintengingu við hinn stafræna heim. Notendur í dag ætlast til þess að geta innt greiðslur af hendi hvar og hvenær sem er og að þær gangi í gegn samstundis, og slíkar lausnir standa raunar neytendum í mörgum löndum þegar til boða.“
Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika svarar sömu spurningu á þessa leið:
„Hvað er seðlabanki þegar allt kemur til alls? Hann er bara samtrygging, og fyrir hana borgum við eitthvert iðgjald, sem er þá kostnaðurinn við kerfið; eftirlit, greiðslumiðlun og svo framvegis. Auðvitað eigum við að leita leiða til að lækka það gjald til lengri tíma.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.