Skólamatur, félag sem sérhæfir sig í framleiðslu og framreiðslu á ferskum og hollum mat fyrir börn í leik- og grunnskólum, velti 3,2 milljörðum króna á síðasta ári. Til samanburðar nam velta ársins á undan 2,7 milljörðum og nam veltuaukningin því nærri fimmtungi. Velta félagsins hefur aukist verulega á undanförum árum. Til marks um það nam veltan 1,4 milljörðum árið 2020 og hefur hún því rúmlega tvöfaldast á fjórum árum.
Á sama tíma hefur hagnaður félagsins einnig aukist. Í fyrra nam hagnaðurinn 155 milljónum og rúmlega tvöfaldaðist frá fyrra ári er hann nam 74 milljónum. Árið 2024 var besta rekstrarár í sögu Skólamatar, bæði þegar horft er til veltu og hagnaðar.
Jón Axelsson, framkvæmdastjóri Skólamatar, segir horfur í rekstri félagsins á næstu mánuðum og misserum mjög góðar. Áætlanir félagsins geri ráð fyrir áframhaldandi vexti og aukinni eftirspurn eftir þjónustu þess.
Félagið rekur 90 starfsstöðvar á suðvesturhorninu. Spurður um hvort það standi til að opna starfsstöðvar í fleiri landshlutum segir Jón það koma til greina á næstu árum, en ólíklegt sé að það verði alveg á næstunni.
Hann telur framtíð félagsins mjög bjarta. „Við ætlum okkur að halda áfram að bæta gæði skólamáltíða í leik- og grunnskólum á Íslandi og auka ánægju og meðvitund markaðarins um skólamáltíðir almennt. Það gerist með upplýstri umræðu, hæfu starfsfólki og vel útfærðum leiðum og verklagi,“ segir Jón og nefnir dæmi um væntanlega nýjung úr þróunarstarfi félagsins.
„Framundan er átak í því að þróa aukna fjölbreytni í salatbar, sem er nú þegar í öllum grunnskólum. Við höfum fjárfest í búnaði sem getur framreitt ferskt bygg og pastarétti sem við teljum að verði spennandi og holl viðbót og valkostur fyrir nemendur og starfsfólk. Þetta er dæmi um það sem við erum stöðugt að þróa og bæta í samstarfi við nemendur, foreldra og starfsfólk skóla.“
Fjölskyldufyrirtæki
Fjölskyldufyrirtækið Skólamatur var stofnað snemma árs 2007 en áður hafði Matarlyst ehf. rekið skólamötuneyti sem eina einingu innan fyrirtækisins. Félagið er hugarfóstur matreiðslumeistarans Axels Jónssonar, sem á í dag félagið ásamt tveimur börnum sínum, en hann býr yfir áratuga reynslu af alhliða veitingarekstri.
Áhugi Axels beindist að heitum skólamáltíðum eftir setu hans í skólanefnd Keflavíkurbæjar árið 1990. Út frá reynslu sinni þróaði hann viðskiptahugmynd sem varð að veruleika árið 1999 þegar hann hóf að bjóða börnum í leik- og grunnskólum upp á hollar máltíðir, sérstaklega ætlaðar orkumiklum krökkum sem hafa þörf fyrir næringarríkan mat í erli dagsins.
Nú hafa börn Axels tekið við keflinu af föður sínum og reka félagið. Jón Axelsson er framkvæmdastjóri og Fanný Axelsdóttir er mannauðs- og samskiptastjóri. Axel hefur þó ekki alfarið slitið sig frá rekstrinum og er stjórnarformaður félagsins.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.