Efling stéttarfélag boðaði í gær til verkfalls á hótelum Íslandshótela og Fosshótela þann 7. febrúar að undangenginni atkvæðagreiðslu. Samtök atvinnulífsins (SA) hafa útbúið reiknivél sem sýnir hvaða áhrif verkfallið hefur á kjör starfsfólks á tíma verkfallsins.
Í boðun Eflingar um vinnustöðvun segir að þau sem taki þátt í verkfallinu fái 23.500 krónur fyrir hvern þann dag sem félagsmaður missir laun vegna verkfalls. Það jafngildir 509.000 kónum á mánuði.
SA bendir á að greiddir eru skattar af verkfallsstyrk en ekki er greitt 10,17% orlof og ekki kemur mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð starfsmanns.
Sé miðað við starfsmann með 509 þúsund krónur í heildarlaun á mánuði, í samræmi við mánaðarlega verkfallsstyrkinn, þá fær hann í raun 625 þúsund krónur þegar orlof og greiðslur í lífeyrissjóð eru teknar með í reikninginn. Fyrir hverja viku sem verkfallið stendur yfir verður viðkomandi starfsmaður af nærri 27 þúsund krónum í tekjur.
SA tekur fram að reiknivélin miðar við fullt starf með vaktaálagi, yfirvinnu og viðbótargreiðslum, og forsendur um lengd verkfallsins. Gert er ráð fyrir að jafnaði 5 vinnudögum í viku. Í tilfelli vaktafólks geta vinnudagar verið færri og því mögulega um lægri verkfallsstyrk að ræða.
Konráð S. Guðjónsson, efnahagsráðgjafi SA, deildi reiknivélinni á Twitter og segir einfalt að sjá að félagsmenn Eflingar verði fyrir tekjufalli af verkfallinu. Þá taki reiknivélin ekki til tafa á launahækkunum og tap á afturvirkni sem geti með öllu hlaupið á hundruðum þúsund króna að hans sögn.
Það er frekar einfalt að sjá að Eflingarfélagar hjá Islandshótelum verða fyrir tekjutapi á meðan verkfalli stendur.
— Konráð S. Guðjónsson (@konradgudjons) January 24, 2023
Þá er ótalin töf á launahækkunum og tap á afturvirkni sem getur með öllu hlaupið á hundruðum þúsunda króna.https://t.co/lwzA7NL0HD