Reitir fasteignafélag hefur fjárfest fyrir um 17 milljarða króna í ár. Það er „vel umfram“ markmiði félagsins um fjárfestingar upp á 11 milljarða króna fyrir árið 2024. Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu félagsins.

Reitir segja að mikill árangur hafi verið í arðsömum fasteignakaupum sem endurspeglast í að félagið hafi fest kaup á nýjum fasteignum fyrir um 9 milljarða króna á tímabilinu, það sem af er ári. Arðsemi fasteignakaupanna er metin á a.m.k. 6,7%.

Meðalfermetraverð í viðskiptunum er um 493 þúsund krónur, sem Reitir segja að sé lítillega hærra en meðaltal eignasafnsins.

Tekjuaukning vegna fasteignakaupa ársins er áætluð um 710 milljónir króna á ársgrundvelli og áætlað er að rekstrarhagnaður (NOI) aukist um 590 milljónir króna á ársgrundvelli.

Úr fjárfestakynningu Reita.

7,5 milljarða fjárfesting í innri vexti

Þá gerir fasteignafélagið ráð fyrir að innri vöxtur verði um 7,5 milljarðar króna á árinu 2024 og um 8 milljarðar á því næsta.

„Á síðustu árum hefur félagið ráðist í mörg umfangsmikil endurbótaverkefni í fyrirliggjandi eignasafni. Slík verkefni skapa oft gríðarmikil tækifæri til arðbærs vaxtar þar sem þessum vexti fylgir lítil aukning í rekstrarkostnaði,“ segir í fjárfestakynningu félagsins.

Meðal verkefna sem nefnd eru í þessu samhengi er stækkun og endurbygging Klíníkurinnar í Ármúla, endurbætur í Holtagörðum, Heilsugæslan í Spönginni, stækkun vöruhúss Aðfanga í Skútuvogi, Kúmen og þriðja hæð Kringlunnar og umbreyting Laugavegs 176 í nýtt Hyatt Centric hótel.

Fjárfesting Reita í innri vexti.

Byggingakostnaður 60-80% umfram bókfært virði

Reitir segja að hröð hækkun á kostnaði við byggingu atvinnuhúsnæðis á síðustu árum hafa ekki að fullu komið fram í verðmati eigna. „Leiguverð þarf sömuleiðis að fylgja betur.“

Fasteignafélagið áætlar að heildarkostnaður við byggingu sambærilegra eigna og er í eignasafni sínu sé um 700-800 þúsund krónur á fermetra, miðað við upplýsingar í þeim fjárfestingum, nýbyggingar- og endurbótaverkefnum sem félagið hefur komið að síðustu misseri.

Til samanburðar sé bókfært virði eigna Reita í dag um 440 þúsund krónur á fermetra.

Hagnast um 1,1 milljarða á þriðja fjórðungi

Reitir högnuðust um 1,1 milljarð króna á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 1,9 milljarða tap á sama tímabili í fyrra. Munurinn skýrist einkum af því að matsbreyting var jákvæð um 947 milljónir á síðasta fjórðungi en var neikvæð um 2,8 milljarða á þriðja fjórðungi 2023.

Tekjur félagsins jukust um 8,8% og námu 3 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu á þriðja fjórðungi jókst úr 2,5 milljörðum í 2,8 milljarða milli ára.

Reitir búast við að rekstrarhagnaður ársins 2024 verði við efri mörk á því bili 10.900 - 11.100 milljóna króna sem það hafði gefið út.