Reitir fasteignafélag hagnaðist um 6,7 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi samanborið við 5,6 milljarða hagnað á sama tímabili í fyrra. Reitir birtu uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.
Leigutekjur á fjórðungnum jukust um 7,7% milli ára og námu rúmum 4 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu nam 2,7 milljörðum sem samsvarar 8% aukningu frá sama tímabili í fyrra.
„Leigutekjur og rekstrarhagnaður vaxa umfram verðlag og hefur lækkun verðbólgu undanfarið haft jákvæð áhrif á fjármagnsgjöld samanborið við fyrra ár,“ segir í afkomutilkynningu Reita.
Matsbreyting fjárfestingareigna á öðrum fjórðungi nam 11,6 milljörðum samanborið við 7,5 milljarða á öðrum fjórðungi 2023.
Fjárfest fyrir 7,6 milljarða það sem af er ári
Á fyrstu sex mánuðum ársins fjárfesti félagið innan og utan eignasafnsins fyrir tæpa sex milljarða.
Reitir keyptu m.a. húsnæði fyrir dagdvöl aldraðra og safn verslunarhúsnæðis miðsvæðis í Reykjavík auk þess að fjárfesta í uppbyggingu nýs Hyatt Centric hótels við Laugaveg 176 og stækkun Klíníkurinnar í Ármúla.
Eftir lok reikningsskilatímabilsins hefur félagið fjárfest í eignum fyrir 1,4 milljarða og er því er fjárfesting að fjárhæð 7,6 milljarðar króna frágengin það sem af er ári. Önnur viðskipti að fjárhæð tæpir 1,5 milljarðar eru í vinnslu, að því er segir í tilkynningunni.
Félagið segir að umfang fjárfestingarinnar sé í samræmi við nýja stefnu sem kynnt var í maí þar sem sjónum er í ríkara mæli beint að vexti eignasafnsins, m.a. með þróunarverkefnum og fjárfestingu í fjölbreyttari eignaflokkum.
Heildareignir samstæðu Reita námu 212,4 milljörðum króna í lok júní og eigið fé var um 66,4 milljarðar.
Selja lóðir til stórfyrirtækis á smásölumarkaði
„Þekking og fjárhagslegur styrkur Reita eru að nýtast vel í þróun innviða sem samfélagið þarfnast,“ segir Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita.
Hann minnist á nýlega undirritun rammasamkomulags um uppbyggingu fimm hjúkrunarheimila með samtals um 400-600 rýmum á næstu árum en heildarumfang samstarfsins gæti numið 24 til 36 milljörðum króna.
Þá sé góð framvinda í þróunarverkefnum félagsins, þar á meðal í uppbyggingu nýs atvinnuhverfis á sveitarfélagamörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Svæðið, sem er um 90 þúsund fermetrar og hefur fengið nafnið Korputún.
„Mikill áhugi er á verkefninu enda einstök staðsetning og afar áhugavert skipulag sem felur í sér uppbyggingaráform sem munu höfða til fjölbreyttra fyrirtækja. Við hlökkum til að tilkynna um samstarf við tvö stórfyrirtæki í smásölugeiranum varðandi húsnæði í Korputúni,“ segir Guðni.
Ofangreint samstarf við stórfyrirtæki á smásölumarkaði felur annars vegar í sér sölu lóða með um 17 þúsund fermetra byggingamagni. Hinsvegar er um að ræða opnun matvöruverslunar sem kemur til með að verða kjölfesta í verslunarkjarna svæðisins.