Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,5% í hátt í sjö milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan, eða um tveir milljarðar króna, var með hlutabréf Marels sem hækkuðu um 1,6% og stendur gengi félagsins nú í 632 krónum.

Icelandair leiddi hækkanir annan daginn í röð en hlutabréfaverð flugfélagsins hækkaði um 5,1% í tæplega 400 milljóna króna veltu. Gengi Icelandair stendur nú í 1,24 krónum á hlut og er nú um 7% lægra en í upphafi árs.

Auk Icelandair hækkaði gengi hlutabréfa Oculis og Reita fasteignafélags um meira en 4%. Hlutabréfaverð Reita hefur verið á miklu skriði á síðustu vikum og er nú komið upp í 113 krónur á hlut. Gengi Reita hefur hækkað um 17% á einum mánuði og um ríflega fjórðung á undanförnum tveimur mánuðum.

Þá hækkaði gengi hlutabréfa Haga, Símans, Eikar, Skeljar og Kviku banka um meira en tvö prósent í dag.

Hlutabréfaverð þriggja félaga lækkaði í viðskiptum dagisns; Iceland Seaffod, Alvotech og Brims. Hlutabréfaverð Alvotech endaði daginn í 1.620 krónum á hlut eftir 1,5% lækkun í dag og hefur ekki verið lægra síðan í lok september.