Fasteignafélagið Reitir skilaði 675 milljóna króna hagnaði eftir skatta á árinu 2022, samanborið við 7,6 milljarða hagnað árið 2021. Breytingin skýrist einkum af talsvert minni matsbreytingu fjárfestingareigna og auknum fjármagnskostnaði. Félagið birti ársuppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.

Leigutekjur Reita jukust um 13,8% á milli ára og námu 13,5 milljörðum króna. Hreinar leigutekjur jukust um 17% og námu 9,9 milljörðum. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu var um 9,2 milljarðar samanborið við 7,7 milljarða árið 2021.

Matsbreyting fjárfestingareigna árið 2022 nam 1,8 milljörðum samanborið við 8,7 milljarða árið 2021. Þá jukust hrein fjármagnsgjöld úr 6,7 milljörðum í 10,7 milljarða á milli ára en aukningin skýrist einkum af verðbótum vaxtaberandi skulda.

Stjórnendur Reita gera ráð fyrir að tekjur ársins 2023 verði á bilinu 14.650-14.850 milljónir króna og að rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu verði á bilinu 9,9-10,1 milljarði króna.

„Rekstur Reita á árinu 2022 gekk mjög vel og horfur fyrir árið 2023 eru góðar. Tekjuvöxtur milli ára var sá mesti sem félagið hefur séð í nokkurn tíma og rekstrarhagnaður jókst hratt og er sem hlutfall af heildartekjum kominn í grennd við 65%,“ segir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita.

„Nýting eigna hefur aukist jafnt og þétt síðustu misseri. Mikið er um gerð nýrra og endurnýjaðra leigusamninga við öfluga leigutaka, þá er mjög stór hluti óútleigðra rýma vegna eigna í þróunar- eða framkvæmdaferli. Umfangsmiklar framkvæmdir eru hafnar og í undirbúningi víða innan eignasafnsins á spennandi staðsetningum, s.s. í Ármúla 7-9, Holtagörðum og Laugavegi 176.

Rénun heimsfaraldursins hefur jákvæð áhrif í samanburði milli ára. Búið er að ganga frá öllum eftirhreytum þessa tímabils.

Verðbólga setur svip sinn á reikning félagsins og skýrir hún aukningu í fjármagnsgjöldum á árinu. Jákvæð matsbreyting mælist yfir árið en á fjórða ársfjórðungi var umtalsverð matslækkun vegna skarpt hækkandi raunvaxta.“