Reitir gaf í morgun út tekju- og afkomuspá fyrir árið 2023 en fasteignafélagið væntir þess að reksturinn í ár verði góður, útleiga batni milli ára og að vöxtur kostnaðar verði hóflegur, að því er segir í tilkynningu til Kauphallarinnar. Spáin gerir ráð fyrir að tekjur og rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar aukist á milli ára.

Reitir, sem birta ársuppgjör 2022 þann 13. febrúar næstkomandi, gaf í nóvember út áætlun um að tekjur ársins 2022 verði á bilinu 13.250 - 13.400 milljónir króna og að rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu á árinu verði á bilinu 9.050 - 9.200 milljónir.

„Vænta má að tekjur verði lítillega yfir framangreindum horfum og að rekstrarhagnaður verði í efri mörkum bilsins.“

Fasteignafélagið gerir ráð fyrir að tekjur í ár verði á bilinu 14.650 - 14.850 milljónir og að rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu verði á bilinu 9.900 -10.100 milljónir.

Horfur um afkomu ársins 2023 gera ráð fyrir óbreyttu eignasafni, um 6% meðalverðbólgu yfir árið, að eignabreytingar ársins 2022 skili nettó aukningu tekna um 90 milljónir og að útleigu- og framkvæmdaverkefni ársins fari að skila auknum tekjum á síðari hluta ársins.

„Félagið áformar áframhaldandi fjárfestingar innan eignasafnsins sem og kaup nýrra tekjuberandi eigna ef tækifæri gefast.“