Tony Blevins, einn af æðstu samningamönnum Apple, var rekinn í september vegna ummæla sem hann lét falla í myndbandi á samfélagsmiðlinum TikTok.

Í myndbandinu steig Blevins út úr Mercedes-Benz SLR McLaren bifreið sinni á bílasýningu og svaraði spurningu áhrifavalds um hvað hann starfaði við. „Ég keyri bíla, spila golf og læt vel að stórbrjósta konum. En ég tek frí um helgar og á helstu frídögum,“ svaraði hann.

Í viðtali við Wall Street Journal segist Blevins hafa verið að vitna í grínmyndina Arthur frá árinu 1981 þar sem Dudley Moore lét sambærileg ummæli falla við spurningu um hvað hann fékkst við. Blevins bendir einnig á að hann hafi verið við hlið eiginkonu sinnar í myndbandinu sem hló að svarinu.

22 ár leyst upp á 25 sekúndum

Blevins, sem hjálpaði Apple að byggja upp og viðhalda öflugri aðfangakeðju, fékk símtal um miðja nótt frá stjórnanda innan Apple sem tjáði honum að myndbandið sé afar óviðeigandi og kvartanir hefðu borist frá starfsfólki.

Hinn 55 ára gamli Blevins segist hafa vakað alla nóttina til að reyna að ná sambandi við TikTok áhrifavaldinn Daniel Mac, sem fer á milli staða og spyr fólk í lúxusbifreiðum hvað það starfar við. Hann fékk engin svör þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Blevins segist þá hafa verið beðinn um að segja af sér en að hann hafi hafnað því. Örfáum dögum eftir að myndbandið fór í loftið þann 5. september var hann rekinn.

„Þarna voru 22 ár leyst upp á um 25 sekúndum,“ segir Blevins við WSJ. „Ég var algjörlega miður mín. Allt líf mitt hefur verið Apple. Ég reyndi að vera hin tryggasta manneskja.“

Hann undrast ákvörðun Apple að segja sér upp, eftir að hafa tileinkað stærstum hluta af starfsævi sinni fyrir stórfyrirtækið, vegna brandara sem hann sagði utan vinnutíma við einstakling ótengdan Apple.

WSJ hefur eftir fyrrum samstarfsmönnum sem standa með honum að Blevins hafi stundum notað kímnigáfu sína til að draga úr spennu á vinnustaðnum en að þeir hefðu aldrei orðið vitni af karlrembu eða ófaglegri hegðun af hans hálfu. Aðrir sem starfa hjá Apple segja að uppsögnin hafi veri nauðsynleg þar sem fyrirtækið geti ekki látið niðrandi ummæli stjórnenda um konur viðgangast.