Danski lyfjarisinn Novo Nordisk býst við að rekstrarhagnaður á árinu verði 19% til 27% meiri í ár en í fyrra vegna gríðarlegrar eftirspurnar í sykursýkislyfið Ozempic og þyngdarstjórnunarlyfið Wegovy.
Samkvæmt Kauphallartilkynningu í morgun býst félagið við því að tekjur muni aukast um 17% til 25% á milli ára en Reutersgreinir frá.
Novo hefur eytt milljörðum dala á síðustu árum í að auka framleiðsluna á Wegovy en samkvæmt tilkynningunni í morgun kom félagið tvöfalt fleiri skömmtum á markað í Bandaríkjunum í janúar en síðustu mánuði.
Lyfjafyrirtækið á þó langt í land með því að ná að mæta eftirspurn sem er enn í hæstu hæðum.
Gengi Novo hækkaði um 4% við opnun markaða en hefur síðan þá dalað örlítið með deginum. Markaðsvirði félagsins í hádeginu í dag braut 500 milljarða dala múrinn sem samsvarar um 68,3 þúsund milljörðum íslenskra króna.
Samkvæmt tilkynningu félagsins í morgun seldi lyfjafyrirtækið Wegovy fyrir 1,4 milljarða dala á milli október og desember sem samsvarar 191 milljörðum króna.
Tekjur félagsins á fjórða ársfjórðungi jukust 37% á milli ára og námu 1,311 milljörðum íslenskra króna.
Hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) hækkaði um 57% og nam 533 milljörðum íslenskra króna.