Strætó hefur fengið endurnýjað rekstrarleyfi þrátt fyrir að uppfylla ekki skilyrði um jákvætt eigið fé. Þetta staðfestir Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, í samtali við Viðskiptablaðið.

„Það verður Strætó áfram eftir 28. maí,“ segir Jóhannes og vísar til þess að fyrra rekstrarleyfi félagsins gilti aðeins út morgundaginn.

Strætó hefur að undanförnu unnið með innviðaráðuneytinu og Samgöngustofu að lausn í málinu. Ljóst er að Strætó fékk endurnýjað rekstrarleyfi á allra síðustu dögum en í nýjustu fundargerð stjórnar frá 17. maí kemur fram að vinna að undirbúningi endurnýjunar rekstrarleyfis var enn í fullum gangi.

Jóhannes segir að í þessum undirbúningi hafi komið í ljós að almenningssamgöngur eru undanþegnar ákveðnum skilyrðum fyrir leyfisveitingar í Evrópu. Til stendur að breyta reglugerð hér á landi þannig að almenningssamgöngur fái sambærilegar undanþágur.

„Ég held [ráðuneytið og Samgöngustofa] hafi byrjað á að veita undanþágu [fyrir Strætó] og í kjölfarið muni þeir breyta reglugerðinni þannig að hún verði til samræmis því sem er í Evrópu.“

Strætó hafði fyrr í þessu ferli borið fyrir sig að félagið er byggðasamlag með ótakmarkaða ábyrgð eigenda sinna, sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, og því tryggt að það fari aldrei í gjaldþrot.

Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Fjárhagsstaða Strætó áfram þung

Í árshlutauppgjöri fyrir fyrsta ársfjórðung kemur fram að rekstrarniðurstaða Strætó var jákvæð um 191 milljón króna og batnaði því eiginfjárstaða félagsins úr því að vera neikvæð um 364 milljónir í árslok 2023 í að vera neikvæð um 174 milljónir í lok mars síðastliðnum.

Afkoman var yfir væntingum einkum af því að rekstrargjöld voru 146 milljónum undir áæltun. Í skýrslu og áritun stjórnar og framkvæmdastjóra er það aðallega rakið til aðhalds í rekstri sem og að kjarasamningar eru lausir. Vænta megi að launakostnaður hækki þegar samningar liggja fyrir.

Í nýjustu fundargerð stjórnar Strætó segir að fjárhagsstaða félagsins sé þung, vagnar að eldast og rekstrarkostnaður þeirra að hækka.

„Vanfjármögnun Strætó í gegnum árin og bæting tekna vegna Covid hafa dregið úr tækifærum Strætó til þjónustubóta og staðið í vegi fyrir eðlilegri endurnýjun vagnaflotans og orkuskiptum. Mikilvægt er að sem fyrst verði fundin lausn á fjárhagsskipan Strætó.

Tekjumódel Strætó þarf að skoða nánar og eru nokkrir tekjuliðir sem hafa ekki hækkað til samræmis við hækkun vísitölu, má þar helst nefna framlag ríkisins til eflingar almenningssamgangna og framlag vegna nemakorta. Er þar mikil halli á og væri ríkisframlagið um helmingi hærra ef það héldi verðgildi sínu frá 2012 og því uppsafnað nokkur hundruð milljónir króna. Nemaframlagið væri tvöfalt hærra ef það héldi raunvirði frá því það var tekið upp.“