Áætlað er að halli A-hluta Reykjavíkurborgar nemi 15,3 milljörðum króna á árinu 2022 samkvæmt útkomuspá. Spáin byggir á fyrstu níu mánuðum ársins þar sem afkoma A-hluta var neikvæð um 11,1 milljarða.
Rekstrarhorfurnar hafa versnað á afar skömmum tíma, en í fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2022, sem samþykkt var fyrir um ári síðan, var áætlaður 2,8 milljarða halli á A-hluta. Hefur afkoman því versnað um 12,5 milljarða milli áætlana.
Ein af meginskýringunum fyrir þessu misræmi er vaxandi verðbólga sem hefur aukið verulega á fjármagnskostnað borgarinnar, en meira en 70% af útgefnum skuldabréfum borgarinnar eru verðtryggð. Í fyrrnefndri fjárhagsáætlun var áætlað að fjármagnsliðir yrðu jákvæðir um 191 milljón króna á árinu. Í nýútgefinni útkomuspá fyrir árið 2022, sem má finna í fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2023, er hins vegar áætlað að fjármagnsliðir verði neikvæðir um 5,7 milljarða á árinu. Því hefur kostnaður vegna fjármagnsliða aukist um 5,5 milljarða á milli áætlana.
Þar að auki reynist launakostnaður A-hluta tæplega fjórum milljörðum meiri í útkomuspánni samanborið við fyrri áætlun og annar rekstrarkostnaður rúmum þremur milljörðum meiri.
Munar 30 milljörðum á afkomu A-hlutans og samstæðunnar
Þegar litið er til samstæðu Reykjavíkurborgar er áætlaður fjármagnskostnaður upp á 26,4 milljarða króna á árinu 2022 eða sem nemur 190.546 krónum á hvern íbúa.
Í samstæðunni er einnig gert ráð fyrir jákvæðri afkomu á árinu 2022 upp á 15,4 milljarða króna. Hinn 30 milljarða króna munur á afkomu A hlutans og samstæðunnar skýrist nánast að öllu leyti af 29,5 milljarða króna matsbreytingum á fjárfestingaeignum borgarinnar. Þar er um að ræða, að langmestu leyti, matsbreytingu á félagslegu húsnæði á vegum Félagsbústaða, en í heildina eru 3.049 íbúðir á vegum Félagsbústaða.
Til að lesa meira
Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.
Verð frá 2.749 kr. á mánuði