Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir að rekstur Reykjavíkurborgar hafi staðið mun verr en hann átti von á þegar hann tók sæti í borgarstjórn og tók við sem formaður borgarráðs sumarið 2022.

Hann hafði gert ráð fyrir að geta einblínt á að færa til fjármagn í málaflokka sem Framsókn hafði talað fyrir í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga. Þess í stað hefur Einar þurft að setja mikla orku í aðhald í rekstri borgarinnar, og þá einkum þegar kemur að mönnun.

Í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark segist Einar hafa kynnt sér síðasta ársreikning og fjárhagsáætlun borginnar áður en fór í borgarstjórn. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 gerði ráð fyrir 3,4 milljarða króna halla á A-hluta borgarinnar.

Halli A-hlutans var strax orðinn 8,9 milljarðar króna á fyrri árshelmingi 2022, samkvæmt hálfsársuppgjöri sem birt var í september. Rekstrarniðurstaða A-hlutans fyrir árið 2022 í heild sinni var neikvæð um 15,6 milljarða.

„Manni féllust dálítið hendur,“ segir Einar en bætir við að uppgjörið hafi m.a. litast af fjármagnsliðum og hárri verðbólgu.

„En við réðumst strax í talsverðar hagræðingaraðgerðir um haustið, strax eftir að við tókum við [í byrjun kjörtímabils]. Það var ekki það sem maður einhvern veginn bjóst við að maður væri að fara að gera. Ég bjóst við því að vera að fara færa til fjármagn í málaflokka sem við höfðum verið að tala.“

Hann segir að borgin hafi staðið í mikilli hagræðingu undanfarin tvö ár. Hann nefnir þar m.a. hátt í hundrað hagræðingaraðgerðir sem ráðist var í en lagði meiri áherslu á að borgin hafi tekið fastari tökum á starfsmannamálum sínum

Rekstrarniðurstaða A-hluta Reykjavíkurborgar var jákvæð um 196 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum þessa árs og var það í fyrsta sinn frá árinu 2019 sem rekstur A-hlutans er rekinn með afgangi á fyrri árshelmingi.

„Ég er rosalega ánægður með það,“ segir Einar. „Þetta er samt brothætt, af því að þetta er bara á nippinu. Það er enn þá verðbólga og vextir eru enn þá ótrúlega háir og fjármagnskostnaðurinn er ógeðslega mikill.

Við erum enn þá að vaxa og þurfum að byggja marga leikskóla, grunnskóla og ný hverfi. Þetta er eiginlega það sem við höfum skilið eftir í fjárfestingaráætluninni, sem við erum að sækja lánin í á skuldabréfamörkuðum. Við skerum einhvern veginn allt niður sem við getum nema bara það sem fólkið þarf mest á að halda.“

Erfitt að fá svör um starfsmannafjölda borgarinnar

Einar segir að eitt af sínum helstu áherslumálum í aðhaldsaðgerðum borgarinnar sé að fjölga ekki starfsfólki. Það skipti gífurlega miklu máli hjá jafnstórum vinnuveitanda og borgin er – t.d. í öllum grunn- og leikskólum borgarinnar, búsetukjörnum fyrir fatlað fólk og í öðrum þjónustumiðstöðvum - að vera rétt mönnuð en ekki ofmönnuð.

„Við fórum í það að búa til svona stafrænan gagnagrunn yfir stöðugildin. Við vorum ekki alveg komin þangað að vera með nægilega góða yfirsýn. Ég var alltaf að spyrja, hvað vinna margir hjá borginni? Það var enginn sem gat sagt mér það almennilega.“

Hann áréttar að það séu vissulega ýmsir þættir sem gera það að verkum að erfitt sé að fá nákvæma mynd af heildarfjölda starfsfólks. Það sé m.a. mikil starfsmannavelta, margir í hlutastarfi og árstíðasveiflur geta litað tölurnar.

„En við náðum utan um þetta með þjónustu- og nýsköpunarsviði. Það er kominn grunnur og fyrsta mánudag í hverjum mánuði þá sit ég með yfirstjórninni og þessu er bara flett upp á skjá.“

Á þessum vikulegu fundum sé farið yfir starfsmannamál hjá hverju og einu sviði borgarinnar, fengið skýringar á öllum ráðningum og hvort tækifæri séu til skilvirkara starfsmannahalds.

„Þetta er aðhald. Þá erum við hérna, ég og sviðstjórarnir, framkvæmdastjórnin, með augun á þessu. Það er ekkert sem gerist bara án þess að við sjáum það og fólk þarf að færa rök fyrir því ef það er að skríða eitthvað fram úr.“

Einar bendir á að hálfsársuppgjör borgarinnar hafi sýnt að meðalfjöldi stöðugilda hjá Reykjavíkurborg hélst óbreyttur miðað við sama tímabil í fyrra.

„Smátt og smátt, af því að stærsti hluti okkar útgjalda eru laun, þá náum við meiri árangri og meiri fyrirsjáanleika í fjármálunum okkar.“

Áhersla á millistjórnendalagið

Einar segir að það sé í sjálfu sér einfalt mál fyrir borgina að ná fram afgangi í rekstri ef ákveðið væri að skera bara niður þjónustu og segja upp starfsfólki í stórum stíl.

Það þurfi hins vegar að hafa í huga að Reykjavíkurborg er í grunnin þjónustustofnun og langflestir starfsmenn hennar séu í beinni snertingu við íbúa með einhverjum hætti. Kröfur borgarbúa séu miklar og hann hafi ekki heyrt neinn íbúa biðja um minni þjónustu.

„Það er það sem við höfum verið gera hingað til og erum áfram að gera á næstu misserum, það er að horfa inn í kerfið – getum við gert stjórnkerfisbreytingar og horft á miðlægu störfin sem eru í stjórnunarstöðum eða svona millistjórnendalaginu. Þar höfum við verið að fara inn með hagræðingartillögurnar okkar, sameina tvö svið og farið í breytingar.

Ég útiloka alls ekki að við gerum meira af því […] En aðalatriðið er það að slíkar breytingar verði ekki til þess að fólk upplifi að það sé að fá verri þjónustu af hálfu borgarinnar.“

Til í hallarekstur til að koma í veg fyrir voðaverk

Einar sagðist feginn að hafa ekki staðið fyrir því að skerða niður þjónustu við börn. Reykjavíkurborg sé með afar mörg verkefni út um allt skólakerfið sem snúa að því að grípa krakka í vanda. Þessi verkefni geti sum hver verið talsvert kostnaðarsöm.

„Tölum bara aðeins um börnin núna, sem er mikil umræða um eftir þetta voðaverk á menningarnótt. Þar var drengur í einhverjum vanda, veit ekki hvaða vanda hann glímdi við, en honum leið greinilega illa og framdi voðaverk,“ segir Einar.

„Af hverju vorum við ekki búin að grípa hann? Við erum með hundruð starfsmanna í að sinna börnum úti um allt kerfið.“

Einar segir að starfsmenn borgarinnar séu í beinni tengingu við fjölskyldurnar í borginni. Í mörgum tilfellum er farið heim til fjölskyldna barna, þegar eitthvað kemur upp á, ef þær mæta ekki skólann eða annað slíkt.

„Þetta eru ótrúlega mikilvæg og verðmæt handtök. Við upplifum það þegar við stöndum frammi fyrir svona harmleik, að spyrja okkur hvað getum við gert betur? Sannarlega getum við öll gert betur, sveitarfélög, ríki, skólarnir, foreldrafélögin, meiri samtakamátt í alls konar málum. […]

„Ég er alveg til í að reka borgina með halla til að koma í veg fyrir svona mál. Þetta er bara hagsmunamatið.“