Íslenska heilsutæknifyrirtækið RetinaRisk, sem var stofnað af Einari Stefánssyni augnlækni og stofnanda Oculis, hefur undirritað samning við sádi-arabíska líftæknifyrirtækið SaudiVax um dreifingu á lausnum fyrirtækisins í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku (MENA) til næstu fimm ára.

Samningurinn, sem er metinn á rúmlega tvo milljarða íslenskra króna, er fyrsti dreifingarsamningur fyrirtækisins á svæðinu.

RetinaRisk segir samninginn undirstrika þörfina á aukinni skilvirkni í eftirfylgni augnsjúkdóma í sykursýki. MENA svæðið sé með hæsta hlutfall fólks með sykursýki á heimsvísu og áskorunin við að veita öllum reglulega augnskimun á ári hverju er gríðarleg.

SaudiVax sérhæfir sig í þróun og dreifingu háþróaðra heilbrigðislausna. Fyrirtækið er í eigu Fakeeh Care Group samstæðunnar sem er skráð í kauphöllina í Sádi-Arabíu. Ársvelta samstæðunnar, sem rekur m.a. fimm sjúkrahús í Sádi-Arabíu og Dúbaí, var ríflega 85 milljarðar króna árið 2023.

RetinaRisk hefur undanfarin 15 ár þróað algrím sem eykur skilvirkni við augnskimanir í sykursýki um allt að helming. Fyrirtækið segir því til mikils að vinna þegar skima á yfir 70 milljón manns á ári hverju á svæðinu.

„Þetta samstarf við SaudiVax markar kaflaskil í markaðsstarfi fyrirtækisins og leggur grunninn að frekari vexti á erlendri grundu jafnt sem á Íslandi,“ segir Ægir Þór Steinarsson, framkvæmdastjóri RetinaRisk.

„Með samstarfi við aðila af þessari stærð í Mið-Austurlöndum erum við ekki aðeins að styrkja viðskiptalega viðveru okkar heldur einnig að leggja okkar af mörkum í alþjóðlegri baráttu gegn blindu sem hægt er að koma í veg fyrir af völdum sykursýki.“

Fyrirtækið undirbýr sig núna fyrir komandi fjármögnunarlotu sem miðar að því að flýta fyrir alþjóðlegum vexti og vöruþróun.

RetinaRisk var stofnað árið 2009 af Einari Stefánssyni, augnlækni, Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði og Örnu Guðmundsdóttur innkirtlalækni.

Fyrirtækið sérhæfir sig í nýsköpun í augnsjúkdómum í sykursýki og hefur þróað algrím sem notar stærðfræðimódel til að meta áhættu einstaklinga af sjónskerðingu vegna sykursýki og ráðstafa heilbrigðisþjónustu á skilvirkari hátt í samræmi við áhættu á þróun augnsjúkdóma. Með því stuðla lausnir RetinaRisk að því að gera augnsjúkdóma vegna sykursýkis greinanlega mun fyrr og meðhöndlun aðgengilegri.