Í febrúar afþakkaði stjórn Íslandsbanka boð stjórnar Arion banka um að hefja samrunaviðræður. Aðspurður kveðst Jón Guðni sannfærður um að stjórn Íslandsbanka hafi tekið rétta ákvörðun.

„Við skoðuðum þetta mjög vel og höfum raunar gert það oft áður í gegnum tíðina. Þau gögn sem Arion banki lagði til grundvallar fyrir beiðni um samrunaviðræður breyttu ekki þeirri niðurstöðu sem við höfðum komist að – um að það væri afar ólíklegt að samruninn fengi að ganga í gegn vegna samkeppnissjónarmiða. Í ljósi þess þótti okkur ekki rétt að fara af stað í viðræður. Það væri óskynsamlegt að fara af stað í verkefni af þessari stærðargráðu án þess að hafa hæfilegar væntingar um að þetta gæti gengið eftir.“

Hann neitar því þó ekki að samruni bankanna myndi hafa ýmsa kosti í för með sér. „Það segir sig sjálft að með því að sameina tvo stóra banka í eina stærri einingu er hægt að ná fram stærðarhagkvæmni og auknum slagkrafti. Aftur á móti eru samkeppnissjónarmiðin hin hliðin á peningnum. Í sjálfu sér er hægt að heimfæra þetta yfir á hvaða geira sem er, þessa jafnvægislist á milli stærðarhagkvæmni og samkeppnissjónarmiða. Það er bara spurning hvort vegur þyngra í hverju tilfelli fyrir sig.“

Fyrir rúmum tveimur árum hóf Íslandsbanki samrunaviðræður við Kviku banka en þær viðræður runnu út í sandinn nokkrum mánuðum síðar. Er því ljóst að stjórnir bankanna höfðu trú á að samruninn hlyti blessun samkeppnisyfirvalda. Spurður um hvort hann sjái fyrir sér að Íslandsbanki og Kvika banki láti reyna á samrunaviðræður á ný kveðst Jón Guðni ekki útiloka neitt í þeim efnum.

Nánar er rætt við Jón Guðna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér og viðtalið í heild hér.