Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur kveðið upp úrskurð um kröfu Samskipa um frestun réttaráhrifa vegna ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins (SKE) um að leggja á 4,2 milljarð króna stjórnvaldssekt á flutningafyrirtækið vegna ólögmæts samráðs við Eimskip á árunum 2008-2013.

Áfrýjunarnefndin féllst á að fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar að því er varðar greiðslu sektarinnar á meðan málið er til meðferðar fyrir nefndinni

Í frétt á vef SKE segir að áfrýjunarnefndin taldi aðstæður vera fyrir hendi sem væru á margan hátt sérstakar og óvenjulegar hvað varðar þann hluta ákvörðunarinnar sem snéri að greiðslu álagðrar sektar. Í úrskurðinum sé einnig vísað til þess að málið sé mjög umfangsmikið og eigi sér hvað það varðar vart hliðstæðu í samkeppnisrétti hér á landi.

„Í ljósi þeirra staðreynda sé einsýnt að meðferð málsins fyrir áfrýjunarnefndinni muni dragast og sé viðbúið að talsverður tími muni líða þar til niðurstaða í málinu muni liggja fyrir hjá nefndinni. Þannig sé ljóst að ekki muni takast að ljúka meðferð málsins fyrir nefndinni innan þeirra tímamarka sem lög kveða á um.“

Hafna því að fresta réttaráhrifum fyrirmæla

Áfrýjunarnefndin hafnar aftur á móti að fresta réttaráhrifum þeirra fyrirmæla sem SKE beindi til Samskipa, svo sem um að fyrirtækið hætti öllu viðskiptalegu samstarfi við Eimskip og félög á þess vegum, nema sýnt væri fram á að samstarfið væri þess eðlis að ekki væri hætta á röskun á samkeppni.

Taldi nefndin að fyrirmælin væru hvorki óvenjuleg né sérlega íþyngjandi í garð fyrirtækisins þannig að fyrir hendi væru aðstæður sem réttlættu að fresta réttaráhrifum þeirra.