Náist samningar milli kröfuhafa Íbúðabréfa og stjórnvalda gæti það skilið eftir nokkra óvissu um takmörk ríkisábyrgðar að því leyti sem um er deilt, þar sem aðeins þarf samþykki 75% kröfuhafa til að breyta skilmálum bréfanna.

Þar sem lífeyrissjóðirnir eiga um 90% bréfanna í dag gætu þeir þannig bundið hendur annarra kröfuhafa.

Nokkur umræða var um eðli og takmörk ríkisábyrgðar á bréfunum árið 2013 eftir að Eygló Harðardóttir velferðarráðherra kallaði eftir aðkomu kröfuhafa að lausn vandans í viðtali við Bloomberg fréttaveituna.

Þróun verðlagningar bréfanna og það hvernig umræðan fjaraði út bendir til þess að markaðsaðilar hafi litið svo á að yfirlýsinga- og aðgerðarleysi stjórnvalda ásamt því að fjármagna taprekstur sjóðsins með fjárframlögum upp á alls um 100 milljarða þýddi að málið hefði verið útkljáð.

Valdimar Ármann, forstöðumaðu eignastýringar hjá Arctica Finance, segir ljóst af hóflegu álagi ávöxtunarkröfu íbúðabréfanna á ríkisbréfavexti að markaðurinn hafi talið ábyrgðina örugga. Álagið hefur um árabil verið um fjórðungsprósent.

„Miðað við það litla álag sem bréfin hafa lengið borið er nokkuð ljóst að markaðurinn taldi ábyrgðina gilda út líftíma bréfanna og ná þannig yfir óbreytt greiðsluferli en ekki aðeins höfuðstól,“ segir Valdimar.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.