Sjóðstýringarfyrirtækið Stefnir hefur unnið greiningar á fjármálum sveitarfélaganna síðastliðin ár en samkvæmt greiningu fyrirtækisins á ársreikningum síðasta árs kom Reykjanesbær best út. Niðurstöðurnar eru að finna neðst í fréttinni.
Rekstrarniðurstaða A og B hluta Reykjanesbæjar var jákvæð um 2,4 milljarða í fyrra.
Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um 1,45 milljarða og er það mun betri niðurstaða en gert var ráð fyrir.
Líkt og hjá öðrum sveitarfélögunum munaði þar mestu að útsvarstekjur voru hærri en áætlað var.
Aukið veltufé frá rekstri var nýtt til nauðsynlegrar innviðauppbyggingar vegna mikillar fjölgunar íbúa síðustu árin og í ýmis viðhaldsverkefni vegna rakaskemmda.
Fjárfestingar Reykjanesbæjar námu 4.965 milljónum króna í A-hluta bæjarsjóðs og 7.713 milljónum króna í samanteknum ársreikningi A- og B-hluta.
Sveitarfélagið réðst í margvíslega uppbyggingu á vegum þar á meðal byggingu íþróttahúss og sundlaugar við Stapaskóla auk tveggja leikskóla sem ráðgert er að taka í notkun síðar á árinu 2024.
Í stigatöflu Stefnis fengu mismunandi rekstrarþættir mismunandi vigt. Til að mynda fengu tekjur um 9% vigt í stigagjöfinni þar sem tekjurnar eru að mestu afleiða þess hver laun íbúa eru. Sveitarfélög hafa því takmörkuð tök á tekjum sínum en geta þó gert margt til þess að auka þær.
Stærsti kostnaðarliður sveitarfélaga er alla jafna launakostnaður og því er mikilvægt að sveitarfélög haldi launakostnaði viðráðanlegum og nái fram einhverri stærðarhagkvæmni í starfsmannafjölda. Þar með fær rekstrarhagkvæmni 13% vigt í stigagjöfinni.
Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um síðustu daga má sjá að launakostnaður á hvern íbúa hefur aukist mikið síðastliðin ár og eru borgarstarfsmönnum að fjölga hraðar en íbúar hjá mörgum sveitarfélögum.
Einnig er lögð áhersla á skuldir og hvort EBITDA sé að fylgja aukinni skuldsetningu. Því fær efnahagur, samband skulda og eigna, 26% vigt.
Afkoma fær síðan 33% vigt í stigagjöfinni en þar er EBITDA og rekstrarniðurstaða skoðuð m.a. með því að skoða veltufé frá rekstri sem er góður mælikvarði á greiðslugetu sveitarfélaga.
Fjárfesting sem ætti að skila framtíðartekjum fyrir sveitarfélög fær 11% í vigt. Sjá má hér að neðan hvernig sveitarfélögin komu út úr greiningu Stefnis.
Þessi umfjöllun er hluti af lengri greiningu Viðskiptablaðsins á fjármálum sveitarfélaganna. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild sinni hér.