Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir skuldabréfaútboð sem Reykjavíkurborg lauk þann 10. maí sl. hafi gengið vel. Borgin seldi skuldabréf fyrir samtals um 3,2 milljarða króna á umtalsvert verri kjörum en fyrir ári síðan.
Borgin tók við tilboðum samtals að nafnvirði 1.280 milljónir króna á ávöxtunarkröfunni 3,61% í verðtryggðum flokki RVK 32 I. Alls bárust tilboð að nafnvirði 1.880 milljónir á bilinu 3,49-3,68%. Í flokki RVK 48 I tók borgin tilboðum að nafnvirði 1.80 milljónir króna á ávöxtunarkröfunni 3,50%. Heildartilboð í umræddum flokki voru samtals 2.680 milljónir króna að nafnvirði á ávöxtunarkröfunni 3,44-3,53%.
Til samanburðar var ávöxtunarkrafa á verðtryggðum skuldabréfum Reykjavíkurborgar fyrir ári síðan 1%, en þá fjármagnaði borgin sig á svipuðum kjörum og ríkið. Það er því ljóst að þau lánskjör sem borginni standa til boða hafa snarversnað á skömmum tíma.
Meirihlutinn hafi náð árangri í rekstrinum
Borgarstjóri gerir í bréfi sínu lítið úr umfjöllun Morgunblaðsins um fjármál Reykjavíkurborgar. „Morgunblaðið hafði farið mikinn í aðdraganda þess og spáð illa fyrir skuldabréfaútgáfu okkar. Þær hrakspár voru úr lausu lofti gripnar og gekk skuldabréfaútboð í síðustu viku vel. Fréttir hafa ekki ennþá birst af því á síðum blaðsins,“ segir í bréfi borgarstjóra.
Hann segir meirihlutann hafa náð árangri í rekstri Reykjavíkurborgar og að með samstöðu að vopni muni sá árangur aukast. Í bréfi sínu vísar borgarstjóri til úttektar Heimildarinnar, en af henni megi ráða að „Reykjavík stendur einna skást sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.“
Rekstur borgarinnar í járnum
Samkvæmt ársreikningi sem borgin birti nýverið er reksturinn í járnum. Þannig er veltufé frá rekstri neikvætt og rekstur borgarinnar ósjálfbær. Þá telur eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga A-hluta borgarinnar ekki uppfylla neitt lágmarksviðmiða um rekstur sveitarfélaga. Að sama skapi hafa skuldir á hvern íbúa Reykjavíkurborgar aukist um 76% að raunvirði frá árinu 2014 og skattbyrði á hvern íbúa aukist um fimmtung.
Í kynningu á ársreikningi kom fram að veltufé frá rekstri hafi numið 424 milljónum króna á síðasta ári. Á kynningarfundi vegna ársuppgjörsins var borgarstjóri spurður hvort hann teldi hættu vera á greiðslufalli í rekstri borgarinnar. Hann svaraði því afdráttarlaust neitandi.
Í leiðréttingu sem Reykjavíkurborg birti á ársreikningi sínum fyrir skemmstu kom fram að veltufé frá rekstri hafi verið neikvætt um 2.049 milljónir króna, en ekki jákvætt um 424 milljónir og lausafjárstaða því lakari sem því nemur. Veltufjárhlutfall borgarinnar var því neikvætt á síðasta ári og þörf fyrir lánsfjármögnun meiri en áður var talið. Rekstur borgarinnar stendur ekki undir sér. Borgin hefur neitað að upplýsa um lausafjárstöðu sína, en hefur sagt að hún geri ráð fyrir því að standa undir skuldbindingum sínum.