Ef samruni Arion banka og Kviku banka gengur í gegn yrði um að ræða tíunda samruna eða yfirtöku Kviku frá stofnun fyrirtækisins fyrir áratug síðan. Um leið yrði samruninn sá langstærsti í sögu Kviku og einn sá stærsti sem ráðist hefur verið í innan íslensks fjármálakerfis frá hruni.
Þess má þó vænta að Samkeppniseftirlitið setji ýmsa fyrirvara og skilyrði eigi samruninn að fá samþykki þess, til að mynda um aðskilnað eða sölu dótturfélaga eða rekstrareininga. Þar munu togast á kostir stærðarhagkvæmninnar og samkeppnissjónarmið.
Samanlagt markaðsvirði félaganna miðað við gengi hlutabréfa þeirra í Kauphöllinni þegar þetta er skrifað er um 325 milljarðar króna. Í viðræðum félaganna er lagt til grundvallar að viðskiptagengið verði 19,17 krónur á hlut í Kviku banka og 174,5 krónur á hlut fyrir Arion banka. Til samanburðar stendur gengi Kviku þegar þetta er skrifað í 18,5 krónum á hlut en gengi Arion banka er sama og viðskiptagengið, 174,5 krónur á hlut. Sé miðað við viðskiptagengið nemur samanlagt markaðsvirði félaganna 331 milljarði króna.
