Bandarískir eftirlitsaðilar reyna nú að afla tilboða í Silicon Valley Bank (SVB) sem tekin var yfir af tryggingasjóði innstæðueigenda í Bandaríkjunum á föstudaginn. Vonast er eftir að það takist að finna kaupanda áður en verðbréfamarkaðir og bankar opna að ný í Bandaríkjunum í fyrramálið.
Áhyggjur eru uppi um að ef ekki tekst að finna lausn á stöðunni komist fjöldi fyrirtækja sem átt hafa í viðskiptum við SVB ekki í innstæður sínar í bankanum á morgun og muni þar með eiga í erfiðleikum með að greiða laun og aðra reikninga.
Fari allt á versta veg gæti vandi bankans einnig leitt af sér áhlaup á aðra banka sem þykja í sambærilegri stöðu og SVB.
Samkvæmt lögum í Bandaríkjunum eru innstæður upp að 250 þúsund dollurum, um 35 milljónum króna, tryggðar en um 97% innstæða SVB voru yfir þeirri fjárhæð. Til álita kemur að flokka fall SVB sem kerfislega mikilvægt sem gefur yfirvöldum í Bandaríkjunum m.a. svigrúm til að tryggja hærri innstæður en því nemur.
Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í dag að ekki stæði til að ríkissjóður Bandaríkjanna myndi bjarga hluthöfum Silicon Valley Bank en hins vegar vildu stjórnvöld leita leiða til lágmarka höggið fyrir innstæðueigendur.
Þá segir Bloomberg frá því að Royal Group, fjárfestingafélag tengt æðstu valdhöfum í Abú Dabí hafi til skoðunar að kaupa breska hluta bankans.
Fall Silicon Valley Bank er það stærsta meðal banka í Bandaríkjunum frá árinu 2008. Hlutabréfaverð fjármálastofnana um heim allan féll á föstudaginn eftir að vandræði SVB urðu ljós.
Bankinn var um margt óvenjulegur og því eru skiptar skoðanir um hve mikil áhrif af falli hans kunna að verða fyrir aðrar fjármálastofnanir.
SVB hafði vaxið hratt undanfarin ár sem banki tækni- og sprotafyrirtækja í Kísildalnum og víðar. Fjármagn flæddi inn í slík fyrirtæki á tímum heimsfaraldursins sem varð til þess að innstæður hjá SVB margfölduðust á nokkrum árum. Frá því að vextir tóku að hækka á ný í fyrra hefur þrengt að fjármögnunarmöguleikum þeirra. SVB hafði hins vegar fest nokkurn hluta eignasafns síns í skuldabréfum á lágum vöxtum sem þau hafa að undanförnu þurft að selja með tapi til að mæta úttektum á innstæðum viðskiptavina sinna.
Bankinn tilkynnti við birtingu uppgjörs á fimmtudaginn að hann hyggðist reyna að leysa úr stöðunni með því að sækja sér nýtt hlutafé. Í kjölfarið hrundi hlutabréfaverð bankans og áhlaup varð á bankann þar sem innstæðueigendur vildu taka út fé sitt, sem leiddi til falls hans á nokkrum klukkustundum á föstudaginn.