Hugtakið „greedflation“ eða græðgisbólga varð fleygt fyrir nokkrum árum í umræðum um efnahagsmál beggja vegna Atlantsála. Tilgátan að baki hugtakinu var sú að verðbólgan sem var þá að brjótast fram væri ekki afleiðing rofs á aðfangakeðjum vegna heimsfaraldursins og innrásar Rússa í Úkraínu heldur einfaldlega vegna verðhækkana fyrirtækja sem voru mun hærri en þróun kostnaðar í rekstri þeirra.

Þessi tilgáta fellur vel að heimsmynd margra bæði hér á landi og annars staðar má rifja að í byrjun árs kynnti BHM greiningu sem sýndi að samanlagður rekstrarhagnaður fyrirtækja hækkaði um sextíu prósent á árunum 2018-2022. Á sama tíma hækkaði verðlag um tuttugu prósent. Hagnaðarhlutfall fyrirtækja hefur aldrei hækkað eins skarpt á milli ára og árin 2020 og 2021. Af þessu er dregin sú ályktun að fyrirtæki landsins hafi aukið meðalálagningu á heildarkostnað milli ára og velt kostnaðarhækkunum út í verðlag.

Greining BHM tók ekkert tillit til þróun framlegðarhlutfalls og segir ekkert um hvort álagning hafi hækkað á tímabilinu. Vissulega er það rétt að rekstrarhagnaður fyrirtækja hækkaði mikið á þessu tímabili en ástæðan skýrist fyrst og fremst af ástandinu vegna heimsfaraldursins og efnahagsaðgerðum honum tengdum. Samkomutakmarkanir breyttu neyslumynstri fólks sem hafði áhrif á afkomu verslunar. Vissulega vænkaðist afkoma verslunarinnar á þessum árum en langmestu máli skipti afkoma af fasteignaviðskiptum, aukning á útflutningsverðmæti áls og á tekjum af tækni- og hugverkaiðnaði.

Það sama var uppi á teningnum í Evrópu og í Bandaríkjunum. Að vísu gengu bandarísk stjórnvöld lengra en Evrópumenn í að styðja við bakið á neytendum á tímum heimsfaraldursins en þeir síðarnefndu. Þrálát verðbólga sem braust út á Vesturlöndum í kjölfar endaloka faraldursins og innrásar Rússa hefur eigi að síður myndað frjóan jarðveg fyrir ásakanir um gróðaverðbólgu.

Hagnaður fer minnkandi í Bandaríkjunum

En erfitt er að halda slíku fram þegar litið vestur um haf. Sérstaklega að undanförnu þar sem uppgjör fyrirtækja hafa sýnt mikinn samdrátt á hagnaðarhlutfalli skráðra fyrirtækja. Þannig hefur hagnaður á hlut fyrirtækja í S&P 500-vísitölunni fallið hvern einasta ársfjórðung frá því á fyrri helmingi ársins 2021. Samkvæmt umfjöllun The Wall Street
Journal á dögunum spá sérfræðingar að uppgjörslotan sem nú stendur yfir muni sýna ríflega 8% lækkun á hagnaði á hlut fyrirtækja í vísitölunni.

Þegar arðsemi dvínar reyna fyrirtæki oft að draga úr launakostnaði. Þetta hefur verið áberandi í tæknigeiranum í Bandaríkjunum undanfarin misseri. Uppsagnir á tímum heimsfaraldursins gerði að verkum að hagnaðarhlutfallið jókst tímabundið en eins og bent er á í The Wall Street Journal var það ósjálfbært til lengri tíma. Fyrirtæki þurftu að ráða til sín fólk á ný. En atvinnumarkaðurinn vestanhafs er yfirspenntur og mörg fyrirtæki eiga erfitt með að manna stöður. Á sama tíma letur ástandið önnur fyrirtæki til að fækka fólki og þetta ástand er að grafa undan arðsemi fyrirtækja.

En á meðan þeim röddum sem tala um græðgisbólgu í Bandaríkjunum þagna með hverju uppgjöri sem birtist eru raddirnar háværari í Evrópu. Þannig komst AGS að þeirri niðurstöðu að mismunur á milli framleiðslukostnaðar og útsöluverðs skýri um helming af þeirri verðbólgu sem hefur gengið yfir evrusvæðið undanfarin ár.

Of margir peningar eltu of fáar vörur

Fjallað er um málið í leiðara breska vikuritsins The Economist. Þar kemur fram að hagnaðarhlutfall bandarískra fyrirtækja jókst mikið í kjölfar þensluhvetjandi aðgerða stjórnvalda í heimsfaraldrinum. Á sama tíma og þessi innspýting átti sér stað lét bandaríski seðlabankinn það vera að hækka vexti með þeim afleiðingum að æði rann á bandaríska neytendur. Þetta hafði áhrif alls staðar á Vesturlöndum og sökum faraldursins réðu aðfangakeðjur ekki við þessa auknu eftirspurn neytenda. Eins og The Economist bendir á var þarna á ferðinni verðbólguþrýstingur sem einungis var til kominn vegna aukins peningamagns. Innrás Rússa leiddi svo til þess að orkufyrirtæki og matvælaframleiðendur fundu fyrir sömu áhrifum: verð og hagnaður skaust tímabundið upp.

Breska vikublaðið segir að svipað ástand sé nú uppi á evrusvæðinu. Þrátt fyrir að ekki hafi verið gripið til aðgerða til þess að örva neyslu á meðan faraldurinn stóð yfir niðurgreiða nú evruríkin orkuverð til neytenda með stórfelldum hætti. Talið er að verðmæti niðurgreiðslunnar sé um 3,3% af sameiginlegri landsframleiðslu evruríkjanna. Á sama tíma hefur Evrópski seðlabankinn ekki hækkað vexti nægjanlega mikið til að halda í við verðbólguna.

Að sögn The Economist er þetta að kalla fram svipað ástand og var uppi í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum. Útkoman er há kjarnaverðbólga, hátt hagnaðarhlutfall og mikil hækkun launakostnaðar vegna þess að eftirspurn eftir vinnuafli er meira en framboð. En það er óumflýjanlegt að hagnaðarhlutfallið lækki á ný eins og er að eiga sér stað í Bandaríkjunum. Flestir sérfræðingar spá að það verði raunin í Evrópu á þessu ári.

Eins og fram kemur í umfjöllun The Economist þá er vart innistæða fyrir því að tala um gróðaverðbólgu hvorki vestanhafs né austan. Verðbólga er tilkomin vegna of mikilla örvunaraðgerða í faraldrinum í Bandaríkjunum og á niðurgreiðslu á orkukostnaði í Evrópu á sama tíma og vextir hafa verið of lágir. Ekki verður unnið bug á þessu án frekari vaxtahækkana og aukins aðhalds í ríkisfjármálum.

Íslenska leiðin

Þróunin í Bandaríkjunum og Evrópu endurspeglast að sama skapi í þróuninni hérna. Vextir voru lækkaðir hratt í faraldrinum og stjórnvöld gripu til margvíslegra örvunaraðgerða. Afleiðingarnar voru meðal annars að hagnaðarhlutfall fyrirtækja hefur aldrei hækkað meira en á milli ára eins og 2020 til 2021. En gefur þá ástæðu til þess álykta að þróunina megi rekja til óhóflegrar álagningar fyrirtækja? Heimsfaraldurinn setti mark sitt á þjóðarbúskapinn árið 2020 en þá dróst hagkerfið saman um tæplega 7%. Viðsnúningurinn árið eftir var nánast undursamlegur en þá óx hagkerfið um 4,4%.

Þarna voru ýmis öfl að verki. Aðgerðir stjórnvalda leiddu til þess að ferðaþjónustan fór ekki á hausinn og var því í stakk búin til þess að spretta úr spori þegar áhrif heimsfaraldursins tóku að réna. Samkomutakmarkanir breyttu neyslumynstri fólks sem hafði áhrif á afkomu verslunar. Vissulega bættist afkoma verslunarinnar á þessum árum en langmestu máli skipti afkoma af fasteignaviðskiptum, aukning á útflutningsverðmæti áls og á tekjum af tækni- og hugverkaiðnaði.

En þetta var tímabundið ástand eins og þróunin síðan þá sýnir. Þannig hefur framlegð í rekstri smásölurisanna á markaðnum farið lækkandi undanfarið. Í nýjustu uppgjörum hjá bæði Högum og Festi kemur hins vegar fram að framlegðarhlutfall félaganna sé að lækka. Kostnaðarverðshækkanir birgja og á hrávörum setji þrýsting á framlegð og neytendur séu að færa sig yfir í ódýrari vörur.

Greinin birtist fyrst í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út á föstudaginn.