Rekstrarútgjöld ríkissjóðs námu 1.404 milljörðum króna árið 2023. Í hagræðingartillögunum sem Samtök atvinnulífsins (SA) sendu ríkisstjórninni kemur fram að hvert prósentustig hagræðingar skili þannig um 14 milljörðum í ávinning.
Fjórir útgjaldaliðir nema samtals 79% af rekstrarútgjöldum ríkissjóðs, en það eru fjárframlög til almannatrygginga, laun, kaup á vöru og þjónustu og vaxtagjöld.
Í tillögum SA segir: „Það blasa við augljós tækifæri til þess að ná umtalsverðum árangri í ríkisrekstrinum með því að beina sjónum að fjórum stærstu útgjaldaliðunum. Rýna þarf útgjöld til almannatrygginga með hliðsjón af þeim markmiðum sem þeim er ætlað að ná."
Í tillögum SA segir ennfremur að laun og réttindi ríkisstarfsmanna þurfa að þróast í takt við svigrúm til verðmætasköpunar og taka mið af almennum vinnumarkaði. Sameining ríkisstofnana og aukin skilvirkni í ríkisrekstri dragi jafnframt úr launakostnaði.
„Samningsstaða hins opinbera þegar kemur að innkaupum á vörum og þjónustu er góð í krafti stærðar," segir í tillögum SA. „Með aukinni útvistun og samkeppni um viðskipti má ná fram bestu mögulegu kjörum og hagræða í ríkisrekstrinum. Með sölu ríkiseigna og hagræðingu í rekstri má draga úr vaxtakostnaði samhliða niðurgreiðslu skulda og auka áfallaþol ríkissjóðs. Ríkið er ekki best til þess fallið að standa í samkeppnisrekstri."
Þegar kemur að hagræðingu í ríkisrekstri þarf ríkið að leggja áherslu á að innleiða nýja nálgun og aðferðafræði, sem skilar viðvarandi árangri til lengri tíma. Þetta segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, í viðtali í Viðskiptablaðinu.
Ítarlegt viðtal er við Sigríði Margréti í Viðskiptablaðinu, sem var að koma út. Áskrifendur geta lesið það í heild hér.