Ríflega 300 milljóna króna hagnaður var af rekstri Flugfélagsins Ernis á síðasta ári samanborið við 134 milljóna króna hagnað árið 2021. Er þetta töluverður viðsnúningur hjá félaginu því á árinu 2020 tapaði félagið 302 milljónum en líkt og hjá mögum öðrum fyrirtækjum í ferðaþjónustu litaðist rekstur þess árs verulega af neikvæðum áhrifum heimsfaraldursins, COVID-19. Á árinu 2019 nam tapið 86 milljónum.

Á árinu 2020 var staða flugfélagsins erfið. Skuldir námu ríflega 1,5 milljarði króna á meðan tekjur af flugrekstri námu 829 milljónum. í lok árs 2020 var eigið fé Ernis neikvætt sem nemur 290 milljónum  króna.

Á síðustu tveimur árum hefur rofað mikið til. Tekjur félagsins af flugrekstri hafi aukist og námu 1.156 miljónum króna í fyrra og um síðustu áramót nam eigið fé 156 milljónum. Það sem mestu máli skiptir í þessum viðsnúningi er að í desember síðastliðnum samdi flugfélagið við viðskiptabanka sinn.

Í ársreikningum segir að viðskiptabankanum hafi verið greidd tiltekin umsamin fjárhæð gegn eftirgjöf á eftirstöðvum. Áhrif þessa eru að í rekstrarreikningi ársins 2022 eru tekjufærðar meðal fjármunatekna og fjármagnsgjalda tæplega 628 milljónir króna. Ári áður, eða á rekstrarárinu 2021, lauk félagið við endurfjármögnun á skuldum við helstu lánastofnun félagsins, auk leiðréttingar á skuldum, sem leiddi til 300 milljóna króna tekjufærslu í rekstrarreikningi ársins 2021.

Breytt eignarhald

Flugfélagið Ernir hefur um árabil verið í meirihluteigu hjónanna Harðar Guðmundssonar og Jónínu Guðmundsdóttur. Saman hafa þau átt tæp 65% í félaginu og Asia Cargo Leasing 25%. Fjórir hluthafar hafa síðan átt á bilinu 1 til 4% hlut í félaginu.

Á seinni hluta síðasta árs unnu eigendur Ernis að því að finna nýja fjárfesta. Það tókst og í byrjun árs 2023 eignuðust Mýflug ehf. og Dyland Holding S.A. samtals 67% hlut í félaginu með því að auka hlutafé félagsins um 100 milljónir króna. Eldri hluthafar eiga 33% í félaginu í dag. Á bakvið Dyland Holding stendur Jóhannes Kristinsson fjárfestir, sem átti flugfélagið Iceland Express ásamt Pálma Haraldssyni.

Í skýrslu stjórnar segir að í framhaldi af samkomulaginu við viðskiptabankann skuldi félagið „engin vaxtaberandi lán til banka eða fjármálastofnana”. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins útveguðu nýir hluthafar félaginu 185 milljóna króna lán með allsherjarveði í rekstrareignum félagsins, þar með talið flugvélum, mótorum, varahlutum og flugrekstrarleyfi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær. Áskrifendur geta nálgast viðtalið í heild sinni hér.