Rent Nordic ehf., sem meðal annars rekur bílaleiguna Rent.is, hagnaðist um 737 milljónir króna á síðasta ári en árið áður var nam hagnaðurinn 757 milljónum.

Gott gengi bílaleigunnar árin 2022 og 2023 endurspeglar mjög góð ár fyrir bílaleigur á Íslandi að mati þeirra Theodórs Pálssonar og Hlyns Gylfasonar, tveggja af eigendum Rent Nordic. Markaðurinn sé hins vegar sveiflukenndur og mikilvægt sé að horfa til fleiri ára.

„Við Theodór stofnuðum bílaleigu árið 2012 en hugmyndin hafði kviknað árið áður. Við byrjuðum með nokkra bíla og svo börðumst við í böggum í fleiri fleiri ár og rólega vatt þetta upp á sig,” segir Hlynur um upphafið að bílaleigunni.

Theodór bætir við að rekja megi upphafið til þess tíma þegar Hlynur var bílasali og Theodór var að reka sprautuverkstæði.

„Ég var að kaupa tjónabíla og hann að selja bíla fyrir mig. Um tíma gekk salan ekki vel og við áttum orðið frekar mikið af óseldum bílum. Þannig að við ákváðum bara að stofna bílaleigu, eins skondið og það nú er,” segir Theodór.

„Við erum aðallega venjuleg bílaleiga en erum líka með húsbíla eða það sem við köllum camper,” segir Theodór „Við höfum rekið GO Iceland Car Rental frá upphafi og svo bættist Rent.is við 2015 eða 2016. Við erum einnig með umboð fyrir bandaríska bílaleiguna Ace rent a car. Svo öll þessi þrjú merki eru rekin á sama stað undir Rent Nordic.” Og Hlynur bætir við að Rent.is sé bara einn angi og frekar minni hlutinn heldur en allt hitt.

Aðspurðir um afkomu Rent Nordic segjast þeir félagar að hún litist af öllu samanlögðu og ekkert endilega af camperunum. „Við erum með að jafnaði þúsund bíla og höfum farið upp í 1200 bíla mest en við erum búnir að finna stærðina sem við viljum vera í, en það eru 900 til þúsund bílar og við höfum sniðið reksturinn í kringum það, bæði hvað varðar húsnæði og starfsfólk,” segir Theodór.

Orðinn stöðugur rekstur

Rent Nordic hefur verið staðsett í Keflavík frá upphafi og eru nú með höfuðstöðvar á Flugvöllum 22 þar í bæ. „Við erum ekki lengur með skrifstofu í Reykjavík en við lokuðum henni fyrir um fimm árum. Okkur fannst það vera hagstæðara að vera á einum stað og fluttum okkur til Keflavíkur og höfum verið þar síðan,” segir Theodór.

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Blaðið er opið öllum og hægt er að skoða það hér.