Hlutabréf bandaríska smásölurisans Walmart hafa fallið um 8% í dag eftir að félagið sendi frá sér neikvæða afkomuviðvörun. Auðæfi Walton fjölskyldunnar, sem á ríflega helmingshlut í Walmart, hefur minnkað um meira en 12 milljarða dala, eða yfir 1.650 milljarða króna, í dag. Bloomberg greinir frá.

Walmart færði niður afkomuspá sína og áætlar nú að aðlagaður hagnaður á hlut verði allt að 13% lægri í ár en í fyrra. Fyrir tveimur mánuðum gerði félagið ráð fyrir að hagnaður á hlut myndi einungis lækka um 1% á milli ára.

Walmart sagði að bandarískir neytendur eyði nú minna í ýmsan varning og fyrir vikið sé þörf á að draga úr álagningu til að minnka birgðastöðu félagsins, sérstaklega þegar kemur að fatnaði. Á móti kemur sagði fyrirtækið að neytendur leiti nú til sín í auknum mæli til að spara pening á verðbólgutímum en verðbólga mældist 9,1% í Bandaríkjum í síðasta mánuði.

Þrjú eftirlifandi börn stofnandans Sam Walton; Alice, Jim og Rob ásamt tengdadóttur hans Christy Walton og syni hennar Lukas, eiga rétt undir helming af hlutafé Walmart. Fjölskyldan er sú ríkasta í heimi. Samanlögð auðæfi þeirra hafa minnkað um 11% í ár og eru metin á 198 milljarða dala samkvæmt auðmannavísitölu Bloomberg.