Kínverska drykkjarfyrirtækið Nongfu Spring, sem er í eigu Zhong Shanshan, ríkasta manns Kína, hefur keypt vatnsveitu í bænum Nashua í New Hampshire-ríki í Bandaríkjunum. Newsweek greinir frá því að vatnsveitan liggi við hlið aðalvatnsveitu bæjarins.
Salan hefur vakið upp óhug meðal íbúa og stjórnmálamanna sem segja að flestir í bænum hafi ekki einu sinni vitað af sölunni.
Vatnsveitan er staðsett nálægt innviðum sem eru mikilvægir fyrir drykkjarvatnskerfi Nashua. Fyrirtækið hefur ekki enn greint frá framtíðaráformum sínum á svæðinu en Nongfu Spring er stærsta vatnsflöskufyrirtæki í Kína.
Eins og stendur eru engin lög í New Hampshire sem gætu komið í veg fyrir eignarkaup kínverskra fyrirtækja í ríkinu en öldungadeildarþingmaðurinn Regina Birdsell hefur kallað eftir því að ákveðnum erlendum ríkisborgurum, þar á meðal kínverskum, verði bannað að eiga land í New Hampshire.
Kaupin koma einnig á tímum vaxandi áhyggna og andstöðu í Bandaríkjunum vegna kaupa á landi og innviðum í landinu frá kínverskum aðilum.