Orri Hauksson, sem lét í haust af störfum sem forstjóri Símans eftir tæp ellefu ár í starfi, er í ítarlega viðtali í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Í viðtalinu fer hann um víðan völl og ræðir meðal annars um ófyrirsjáanleika í framkvæmd eftirlitsreglna í íslensku atvinnulífi, sem Orri telur standa atvinnulífinu fyrir þrifum.
„Í Evrópu og Bandaríkjunum er víðast hvar fyrirsjáanlegt hvaða virkni regluverkið hefur og fólk veit að hverju það gengur, svo sem varðandi tímaramma og líklegar niðurstöður þegar fyrirtæki ganga kaupum og sölum. Erlendir fjárfestar hafa vakið máls á þessum mikla neikvæða mun milli Íslands og annarra landa. Þegar íslenskar eftirlitsstofnanir fara af stað í rannsóknir er hið eina sem slá má föstu að slíkt verkefni muni taka óratíma og að framkvæmd þess verði ógagnsæ. Réttarríkið skekkist þegar stofnanir þróa með sér eigin tilvistargrundvöll, óháð umhverfinu. Samkeppniseftirlitið hefur t.d. miklar skoðanir á því hvaða lög eiga að gilda í landinu, auk þess að rannsaka mál og ákveða niðurstöðu þeirra. Þrískipting ríkisvaldsins virðist þar órafjarri. Ef æðra stjórnvald er ósammála niðurstöðu eftirlitsins kærir stofnunin dómstóla fyrir þá niðurstöðu út í hið óendanlega. Niðurstaðan er áralöng óvissa og tugmilljóna kostnaður fyrirtækjanna sem hrannast upp í hverju máli, auk kostnaðar hins opinbera sjálfs.“
Samskipti við Samkeppniseftirlitið setti svip sinn á tíma Orra í forstjórastól Símans en eftirlitið hefur haft afskipti af félaginu í þónokkur skipti á þessum tæplega ellefu árum.
„Þegar við dirfðumst fyrir nokkrum árum að stíga á tærnar á Sýn, með því að kaupa tímabundinn sýningarrétt að efstu deildinni í fótbolta í Englandi, fannst Samkeppniseftirlitinu við hæfi að setja sérreglur á félagið sem aldrei höfðu gilt áður. Slíkar reglur höfðu ekki einu sinni gilt um aðila sem voru með allt íþróttaefni á sinni hendi. Hvert dómstigið á fætur öðru hefur reyndar rekið stofnunina til baka með himinháar sektir sem hún gerði Símanum vegna málsins, en stofnunin heldur málinu þó áfram ár eftir ár og mun sennilega halda því áfram löngu eftir að Síminn er sjálfur ekki lengur að sýna þetta efni.
Þegar við seldum Mílu til Ardian náði Samkeppniseftirlitið svo, með hjálp Fjarskiptastofu, að lækka söluverðið um tíu milljarða með töfum og skilyrðum sem bæta hag Íslendinga að engu leyti. Íslenskir lífeyrisþegar, langstærstu hluthafar Símans, töpuðu mestu af þessum tíu milljörðum til lífeyrisþega á meginlandi Evrópu. Það var eini árangurinn, ef svo má kalla, af málatilbúnaði stofnunarinnar. Þessi sama stofnun hafði margoft mælt með að eigendatengsl Símans og Mílu yrðu rofin, jafnvel með valdi, en þegar loksins er slitið á þessi eignatengsl er eins og að draga endajaxl úr stofnuninni að fá það samþykkt og stórkostleg verðmæti fóru í súginn.“
Miður sé að stofnanir geti farið sínu fram án aðhalds. „Sum fyrirtæki sem lenda árum og jafnvel áratugum saman í klóm þessara aðila þurfa að kosta til mörg hundruð milljónum króna til að verja hendur sínar. Þar við bætist hinn ósýnilegi kostnaður íslenskra neytenda vegna þessarar stýrihyggju – verkefnin sem aldrei verða að veruleika, tilraunirnar sem aldrei fara fram og dýnamíkin sem hverfur af markaði. Nýsköpunarfyrirtæki eru oft fjármögnuð til skamms tíma í senn, en sum þeirra hafa lent í að bíða svo misserum skiptir eftir því að fá leyfi til að sameinast öðrum fyrirtækjum, í tómarúmi og jafnvel vaxandi tilvistarvanda, á meðan stofnunin lúrir á málinu og tefur að gefa einfalt já eða nei svar. Þá verja sum fyrirtæki á Íslandi mikilli orku í leikræna tilburði fyrir framan eftirlitsstofnanir til að fá keppinauta sína hneppta í bönd, vitandi hvaða sal sé þar jafnan að finna. Þetta er ekki verðmætaskapandi hegðun. Þarna er ekki frjáls samkeppni sem ræður för eða hugmyndin um jöfn skilyrði aðila til að keppa á eigin forsendum um hylli neytandans, heldur er leitast við að stýra samkeppninni inn í einhver skapalón. Fyrirtækin eru farin að ritskoða sig sjálf og ekki er látið reyna á margar góðar hugmyndir vegna ótta um að lenda í margra ára stappi við eftirlitsstofnanir,“ segir Orri og beinir orðum sínum næst að sáttum Samkeppniseftirlitsins.
„Þessar svokölluðu sáttir eru mikið rangnefni enda eru fyrirtæki í raun neydd til að ganga að skilmálum Samkeppniseftirlitsins, ef þau ætla til dæmis að kaupa annað fyrirtæki eða reyna binda enda á eitthvað áralangt skak. Sáttir þessar eiga jafnan að taka á einhverju tímabundnu sérstöku vandamáli og hverfa svo þegar hið meinta vandamál er á braut. Reynslan sýnir hins vegar að gildistíma þessara sátta lýkur að því virðist vera aldrei, þótt þær verði úr sér gengnar.“
Dæmi um þetta sé sátt Símans við Samkeppniseftirlitið vegna eignarhalds Símans á Mílu. Samkeppniseftirlitið vill meina að sáttin sé enn í gildi þrátt fyrir að rúmlega tvö ár séu síðan sala Símans á Mílu til franska sjóðastýringarfyrirtækisins Ardian gekk í gegn.
Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.