Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, sendi hluthöfum fjárfestingarfélagsins bréf síðastliðinn föstudag þar sem m.a. er farið er yfir afkomu félagsins á síðasta ári sem og rekstur og horfur félaga sem mynda um 92% af eignasafni Stoða. Umrædd félög eru Arion banki, First Water, Kvika banki, Síminn, Arctic Adventures og Bláa Lónið.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá á mánudag nam hagnaður Stoða 4,2 milljörðum króna í fyrra og jókst um 62% frá fyrra ári. Eigið fé félagsins nam 52,2 milljörðum í lok síðast árs sem samsvaraði innra virði upp á 4,19 krónur á hlut. Ávöxtun hluthafa Stoða var því jákvæð um 8,3% árið 2024.
„Hver myndi reka fyrirtæki með þessum hætti?“
Venju samkvæmt skrifar Jón sömuleiðis um hin ýmsu málefni sem hafa áhrif á fjárfestingarumhverfið á Íslandi. Óhætt er að segja að hann sé gagnrýninn á ríkisreksturinn sem og hvernig hefur verið staðið að fjármögnun hans. Hann segir löngu tímabært að endurskoða reksturinn og ná fram betri nýtingu fjármuna.
„Ég ætla ekki að fara í einhverja ítarlega upptalningu hér en leyfi mér að nefna innkaup á vörum og þjónustu, starfsmannahald og fjármögnun ríkisins. Það virðist öllum ljóst að breyta þarf lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna en samt gerist ekkert í því. Breyta átti lögum um heimildir ríkissáttasemjara en samt gerist ekkert í því. Þegar stofnanir eru loks sameinaðar þá halda allir vinnunni. Hver myndi reka fyrirtæki með þessum hætti? Býst fólk ekki almennt við því að fá aukna og betri þjónustu ef verðið á henni er hækkað verulega? Vill fólk ekki fá magnafslátt ef það kaupir mikið af einhverri vöru eða þjónustu? Þeir aðilar sem bera ábyrgð á að ráðstafa almannafé verða að tileinka sér þann hugsunarhátt,“ skrifar Jón.
Það virðist tilviljanakennt hvort ríkið fjármagni sig til skamms eða langs tíma, verðtryggt eða óverðtryggt og innanlands eða erlendis. „Ég minni á að það skiptir heimilin og fyrirtækin í landinu miklu máli að ríkið vandi til verka í þessum málum enda stýra vaxtakjör ríkisins grunnvöxtum í hagkerfinu sem allt annað byggir svo á. Ef horft er til þróunar á íslenskum skuldabréfamarkaði undanfarin ár er ljóst að ríkið, sem á nægar erlendar eignir, hefur bestan aðgang innlendra aðila að erlendum fjármagnsmörkuðum.“
Í ljósi þessa ætti ríkið að fá til liðs við sig erlenda ráðgjafa til þess að marka bæði skýrari stefnu og markmið um tegund og eðli fjármögnunar og skilvirkari framkvæmd. „Nýta þarf mun betur þá möguleika sem standa til boða í erlendri fjármögnun meðal annars í ljósi þess að verðmætasta eign ríkisins, Landsvirkjun, telst í raun erlend eign vegna þeirra samninga sem félagið er með um raforkusölu. Það virðist því byggt á misskilningi þegar mikið er gert úr gjaldeyrisáhættu af því að ríkið fjármagni sig að verulegu leyti erlendis.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.