Kerecis seldi hugverkaréttindi félagsins til móðurfélagsins Coloplast í desember síðastliðnum fyrir um 1.300 milljónir dala eða rúmlega 180 milljarða króna. Salan er að fullu leyti skattskyld á Íslandi og eru áætlaðar skattgreiðslur hátt í 40 milljarðar íslenskra króna en samkvæmt íslenskum skattareglum er mögulegt að dreifa skattgreiðslunni yfir sjö ára tímabil.
Um er að ræða hátt í 200 einkaleyfi í eigu Kerecis sem varða uppfinningar Guðmundar Fertrams Sigurjónssonar, stofnanda og forstjóra Kerecis, og samstarfsmanna hans.
Salan er í samræmi við stefnu Coloplast, sem keypti Kerecis fyrir ríflega 180 milljarða króna sumarið 2023, að hugverkaréttindi samstæðunnar séu í eigu móðurfélagsins.
Coloplast gjaldfærði 336 milljónir danskra króna eða sem nemur 6,6 milljörðum íslenskra króna á síðasta ársfjórðungi vegna hinnar fyrirhuguðu skattgreiðslu samkvæmt árshlutauppgjöri sem félagið birti í gær.
Danska móðurfélagið gerir ráð fyrir sambærilegum gjaldfærslum á næstu fjórðungum en fram kemur að félagið geri ráð fyrir að fyrstu skattgreiðslurnar vegna tilfærslunnar á hugverkaréttindunum verði á fjárhagsárinu 2026/2027.
Í árshlutauppgjöri Coloplast kemur fram að skattafrádráttur samstæðunnar í Danmörku muni vega alfarið upp á móti hinum fyrirséðu skattgreiðslum á Íslandi.
Vonar að fjármagnið verði nýtt í innviðauppbyggingu
Guðmundur Fertram segir í samtali við Viðskiptablaðið að flutningur á eignarhaldi hugverkanna hafi engin áhrif á starfsemi Kerecis á Íslandi sem haldist óbreytt, og höfuðstöðvar Kerecis verði áfram á Íslandi. Talsverður vöxtur hafi verið í starfsmannahaldi og umsvifum Kerecis á Íslandi frá því að félagið var selt til Coloplast.
„Það er óskaplega ánægjulegt að Kerecis skuli vera að skila svona miklum tekjum í íslenskt skattkerfi,” segir Guðmundur Fertram. „Ég vona að þessir fjármunir verði nýttir til innviðauppbyggingar.”
Til að setja þessa upphæð í samhengi bendir hann á að þetta sé tæplega helmingur af áætluðum kostnaði við að bæta vegi til Vestfjarða. Þá sé þetta um helmingur af því sem kosti að reka Landspítalann árlega.
Stöðugleikinn mikilvægur
Kerecis var sem þekkt er selt til Coloplast sumarið 2023 fyrir um 180 milljarða króna. Þar af runnu 113 milljarðar króna til íslenskra hluthafa og þar af 22 milljarðar til hluthafa á Vestfjörðum.
Guðmundur Fertram, sem hefur verið ötull talsmaður íslenska hugverkaiðnaðarins, segir að verðmætasköpun Kerecis í formi sölutekna á heimsvísu á árunum 2013 til 2025 nemi um 90 milljörðum króna sem sé um 125-falt meira en fyrirtækið hafi þegið í styrki. Í dag starfi 130 manns hjá fyrirtækinu á Íslandi, þar af 80 á Ísafirði og 50 í Reykjavík.
„Umgjörð hugverkaiðnaðarins á Íslandi eins og t.d. skattaívilnanir vegna þróunarkostnaðar eru gríðarmikilvæg fyrir fyrir fyrirtæki eins og Kerecis og hluti af þessari vegferð að skjóta fleiri stoðum undir íslenska hagkerfið með hugverkageiranum. Það sést svart á hvítu hvað það getur verið arðbært fyrir land og þjóð.“
Hann segir einnig mikilvægt fyrir hugverkaiðnaðinn að það sé stöðugleiki og fyrirsjáanleiki í rekstrarumhverfinu og nefnir í því samhengi endurgreiðslur rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Stöðugleiki og fyrirsjáanleiki sé einnig mikilvægur fyrir aðra atvinnuvegi, t.d. sjávarútveginn.
„Það verður að taka tillit til þess að þeir sem fjárfestu upphaflega í Kerecis voru sjávarútvegsfyrirtæki sem voru það vel rekin að þau höfðu tekjur til að fjárfesta í Kerecis. Kerecis var í raun bara Powerpoint kynning þegar Hraðfrystihúsið Gunnvör og Klofningur á Ísafirði fjárfestu í Kerecis. Ef þessi fyrirtæki hefðu ekki verið rekin með arðbærum hætti á þeim tíma þá hefðu þau varla fjárfest í Kerecis. Þannig að stöðugleiki og fyrirsjáanleiki í fiskveiðistjórninni hefur líka mikil áhrif.“