Ríkið tók yfir íbúðarhúsnæði í Grindavík fyrir tæplega 70,6 milljarða króna á síðasta ári samkvæmt ríkisreikningi. Umrætt íbúðarhúsnæði í Grindavík var fært niður um ríflega 16,7 milljarða króna og því metið á 53,8 milljarða króna í lok síðasta árs.
Við gangvirðismat á íbúðarhúsnæði í Grindavík voru fjárhæðir núvirtar með 7% vegnum fjármagnskostnaði (WACC) án áhrifa verðbólgu og skatta.
Ríkið keypti fasteignir í Grindavík í gegnum fasteignafélagið Þórkötlu með það að markmiði að halda utan um eignir í bæjarfélaginu á meðan jarðhræringar gera íbúum ókleift að búa í þeim á öruggan og áhyggjulausan hátt.
Eignirnar voru keyptar á fyrir fram skilgreindu verðlagi. Lög um Fasteignafélagið Þórkötlu kveða á um að kaupverð fasteignarinnar nemi 95% af brunabótamati á kaupdegi. Markmið fyrirkomulagsins er að gera íbúum kleift að kaupa eignir sínar aftur þegar ljóst er að skilyrði á svæðinu hafa batnað.
Íbúðirnar að stærstum hluta seldar fyrir árslok 2029
Eftir formleg lok jarðhræringa á svæðinu er áætlað að eignum, sem eru í útleiguhæfu ástandi, verði komið í útleigu.
Í ríkisreikningnum segir að gert sé ráð fyrir að árið 2027 verði fyrsta árið þar sem eignir eru í útleigu og verða eignirnar í útleigu í þrjú ár þangað til þær verða að stærstum hluta seldar í lok árs 2029.
Á útleigutímabilinu verði stiglækkandi afsláttur þar sem mesti afslátturinn á leiguverðinu verður á fyrsta ári tímabilsins en hann lækkar svo ár frá ári. Jafnframt verður unnið að því að koma eignum sem þarfnast viðhalds í útleiguhæft ástand eins og unnt er.
Á heimasíðu Þórkötlu kemur fram að frá upphafi og til 29. apríl sl. hafi félaginu alls borist 995 umsóknir um kaup á íbúðarhúsnæði, 29 umsóknir um greiðslu á búseturétti og 13 umsóknir um kaup á öðru húsnæði. Félagið hefur samþykkt kaup á 956 eignum og gengið frá kaupum á 943 eignum. Þá hefur félagið hefur tekið við 919 eignum.
Heildarkaupverð þeirra 900 íbúða sem félagið hefur fest kaup á er 71,6 milljarðar króna og þar af eru 21,6 milljarðar yfirtekin húsnæðislán. Áætlað kaupverð eigna sem ekki hafa verið seldar til félagsins en gert er ráð fyrir að uppfylli skilyrði laga um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík er á þriðja milljarð króna.