Ríkið stefnir að því að hefja formlegar samningaviðræður við Landsbankann um kaup á norðurhúsinu við Austurbakka sem er í byggingu. Þá verði kannað til hlítar hvort hægt sé að ná fram hagkvæmri niðurstöðu um kaup ríkisins á eigninni.
Forsætisráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið hafa unnið að greiningu á framtíðarskipan húsnæðismála Stjórnarráðsins. Tillögur liggja nú fyrir um skipulag húsnæðismála Stjórnarráðsins til lengri og skemmri tíma.
Í frétt Stjórnarráðsins segir að um sé að ræða nútímalegt og sveigjanlegt skrifstofuhúsnæði sem hægt er að sérsníða að þörfum Stjórnarráðsins innan skamms tíma og því um álitlegan kost að ræða.
Sjá einnig: Höfuðstöðvar 2 milljörðum dýrari
Heildarkostnaður byggingarinnar nemur tæplega 12 milljörðum króna, en áður hafði verið stefnt að 9 milljarða kostnaði. Ákvörðun um að húsið yrði umhverfisvottað samkvæmt BREEAM-umhverfisstaðlinum bætti við kostnaði.
Landsbankinn hafði nú þegar tilkynnt að bankinn ætli að nýta um 10 þúsund fermetra af byggingunni, en selja eða leigja út 6.500 fermetra. Byggingin skiptist í fjögur sambyggð hús og hyggst bankinn nýta húshlutana næst Geirsgötu en selja eða leigja frá sér þá hluta sem eru nær Hörpu, eins og norðurhúsið. Þannig er skýr afmörkun á þeim rýmum sem bankinn hyggst nýta og þeirra rýma sem hann hyggst leigja út eða selja.