Brotthvarf fjárfesta af hlutabréfamörkuðum og öðrum áhættumeiri eignum í kjölfar tollaaðgerða Donalds Trump Bandaríkjaforseta hefur ýtt ávöxtunarkröfu 10 ára bandarískra ríkisskuldabréfa niður fyrir 4% í fyrsta sinn frá því Trump vann forsetakosningarnar í fyrra.
Skuldabréfamarkaðir hafa tekið við sér í þessari óvissu, með skörpum hækkunum á verði ríkisbréfa og þar með lækkun á ávöxtunarkröfum.
Ávöxtunarkrafa tíu ára ríkisbréfa féll um 0,36 prósentustig niður í 3,88% í dag en það er mesta lækkun frá ágúst síðastliðnum. Á sama tíma hafa bæði hlutabréf og Bandaríkjadalur átt sinn versta dag í mörg ár.
„Við sjáum klassískt mynstur – fjárfestar selja áhættueignir og leita í öruggt skjól, og Bandaríkjaskuldabréf eru enn sterkasta höfnin,“ segir Nicolas Trindade, sjóðsstjóri hjá AXA Investment Managers í samtali við FT.
Hann bendir á að landslagið núna sé „allt annað“ en árið 2022 þegar bæði hlutabréf og skuldabréf lækkuðu samtímis.
Viðbrögðin endurspegla endurkomu á neikvæðri fylgni milli áhættueigna og ríkisskuldabréfa sem hefur verið óljós undanfarin ár en virðist nú vera að styrkjast á ný.
„Þessi þróun er fagnaðarefni,“ segir Fraser Lundie hjá Aviva Investors, og bætir við að lækkun 10 ára ávöxtunarkröfunnar undir 4% sé „skýr vísbending um að hefðbundin tengsl séu að sækja í sig veðrið á ný“.
Líkt og sjá má á VIX-vísitölunni er töluverður ótti meðal fjárfesta. Vísitalan, sem mælir vænt flökt S&P 500 samkvæmt verðlagningu á valréttum tengdum henni, sýnir áhættufælni fjárfesta.
Vísitalan hefur hækkað um 57% á síðustu fimm dögum og stendur tæplega í 38 stigum.
Hún fór hæst í 89 stig í efnahagshruninu 2008.
Lengri tíma vaxtakjör Bandaríkjanna eru ekki aðeins lykilvísitala fyrir alþjóðlega vexti, heldur einnig grundvöllur vaxtakjara víða innanlands.
Áhugi á því að ná álaginu niður er því mikill hjá stjórnvöldum. Scott Bessent fjármálaráðherra sagði að 10 ára ávöxtunin væri „í forgangi“ hjá stjórnvöldum.
Mikil hækkun ávöxtunarkrafna um áramót vakti áhyggjur af sjálfbærni ríkisfjármála í Bandaríkjunum.
Þar við bætast vangaveltur um mögulegt inngrip stjórnvalda í skuldabréfamarkaðinn með svonefndu Mar-a-Lago-samkomulagi til að veikja dollarinn. Hins vegar, líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um, hefur ríkisstjórnin slaufað þeim hugmyndum.
Þegar ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa Bandaríkjanna lækkar hefur það ekki aðeins áhrif á markaði heldur hefur það bein áhrif á ríkisfjármál Bandaríkjanna. Lægri ávöxtunarkrafa þýðir að ríkið getur tekið ný lán á lægri vöxtum, sem dregur úr vaxtagreiðslubyrði ríkissjóðs.
Þegar Bandaríkin gefa út ný skuldabréf, t.d. til að fjármagna hallarekstur eða endurfjármagna eldri skuldir, ráða markaðsvextir úrslitum um hversu mikið ríkið greiðir í vexti til fjárfesta.
Ef 10 ára skuldabréf sem áður hefðu borið 4,5% vexti bera nú 3,88%, þá getur ríkið sparað milljarða dala á ári, að öðrum forsendum óbreyttum.
Meirihluti bandarískra skulda er til langs tíma, svo áhrifin koma í skrefum. Eldri bréf halda sínum vöxtum, en þegar þau renna út eða eru endurfjármögnuð á lægri kjörum færist sparnaðurinn yfir í ríkisbókhaldið. Þetta bætir fjárlagastöðu, dregur úr framtíðarvaxtabyrði og gefur meira svigrúm til annarra ríkisútgjalda.
Hins vegar má ekki líta fram hjá því að slík lækkun getur einnig verið viðvörunarmerki um efnahagsþrengingar. Ef vextir lækka vegna væntinga um samdrátt, þá gæti ríkið þurft að glíma við lægri skatttekjur og aukinn hallarekstur, sem getur vegið á móti hag af lægri vöxtum.