Áætla má að ríkissjóður hafi orðið af um hálfum milljarði króna við sölu á hlutafé og nauðasamningskröfu í Klakka, áður Exista, undir lok árs 2016 sé miðað við það verð sem TM stefnir á að greiða fyrir aðaleign Klakka, fjármögnunarleigufyrirtækið Lykil og útgreiðslur úr Klakka á síðustu árum. Ríkishlutafélagið Lindarhvoll seldi hlutinn fyrir hönd ríkisins til BLM fjárfestingar ehf. sem er í eigu bandaríska vogunarsjóðsins Burlington Loan Management fyrir 505 milljónir króna. Gengið var frá kaupsamningi 1. nóvember 2016 en hluturinn í Klakka var afhentur í byrjun febrúar 2017.
Ári eftir að skrifað var undir kaupsamning hafði Klakki greitt út til BLM tæplega 330 milljónir króna upp í kröfuna sem ríkið seldi. Tveimur árum síðar höfðu 430 milljónir verði greiddar upp í kröfuna samkvæmt gögnum sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum. Það samsvarar um 85% af kaupverðinu. Sé bætt við hlut sem eigendur kröfunnar gætu átt von á vegna fyrirhugaðra kaupa TM á Lykli, aðaleign Klakka, má áætla að heildarvirði hinnar seldu eignar að viðbættum greiðslum inn á kröfuna sé um milljarður króna. Því má ætla að ríkið eða LSR hafi orðið af um hálfum milljarði króna við söluna miðað við ef eignin hefði ekki verið seld eða hún hefði verið færð inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins líkt og gert var við aðrar óseldar eignir sem Lindarhvoll sá um í upphafi árs 2018.
Telja alvarlegar brotalamir á söluferlinu
Félagið Lindarhvoll var stofnað í lok apríl 2016 og hafði það markmið að selja eigur sem féllu ríkinu í skaut eftir nauðasamninga við föllnu bankana undir lok árs 2015. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra skipaði stjórn Lindarhvols 27. apríl 2016. Lindarhvoll gerði einnig samning við fjármálaráðuneytið um störf fyrir ríkið. Stjórnina skipuðu Þórhallur Arason, fyrrverandi skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu, sem var formaður stjórnarinnar, Haukur C. Benediktsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eignasafns Seðlabanka Íslands, og Ása Ólafsdóttir, varaforseti lagadeildar Háskóla Íslands. Þá gerði Lindarhvoll samning við lögmannsstofuna Íslög um daglegan rekstur eigna Lindarhvols. Félaginu var svo slitið í byrjun febrúar 2018 eftir að megnið ef þeim eignum sem eftir voru í Lindarhvoli var fært inn í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.
Forsvarsmenn félagsins Frigus II, sem buðu í hlutinn í Klakka, telja að alvarlegar brotalamir hafi verið á söluferlinu sem hafi ekki verið til þess fallið að ríkið fengi sem hæst verð fyrir hlutinn.
N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .