Ríkissjóður verður að óbreyttu rekinn með halla út árið 2029 samkvæmt fyrstu drögum fjármálaráðuneytisins á afkomuhorfum fyrir árin 2026-2029 sem birtar eru í tilkynningu ráðuneytisins á vef Stjórnarráðsins.
Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í byrjun nóvember voru afkomuhorfur ríkissjóðs færðar niður, einkum vegna endurmats á heildartekjum ríkissjóðs og auknum vaxtagjöldum. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2025 er áætlað að ríkið verði rekið með 62,6 milljarða króna halla, eða sem nemur 1,2% af vergri landsframleiðslu (VLF).
Til samanburðar var gert ráð fyrir að halli næsta árs yrði 41 milljarður króna þegar fjárlagafrumvarp fyrir 2025 var kynnt í september.
„Í samanburði við síðustu birtu afkomuhorfur, frá því fjármálaáætlun var samþykkt í júní, eru afkomuhorfur ríkissjóðs fram á við nú lakari,“ segir í tilkynningunni.
„Mismunurinn stafar fyrst og fremst af breyttri afkomu ríkissjóðs árið 2025 og helst sú afkomulækkun, í samanburði við fyrri áætlanir, út tímabilið. Afkoma batnar aftur á móti áfram í svipuðum takti og áður var ráðgert, miðað við forsendur fjármálaáætlunar.“
Áréttað er að um sé að ræða frummat á afkomuhorfum áranna 2026-2029 og að ný spá efnahagsforsendur fyrir framreikningnum verði birt snemma á næsta ári. Jafnframt verði afkomuhorfur uppfærðar með nýrri þjóðhagsspá í fjármálaáætlun 2026-2030 sem lögð verður fram næsta vor.
Segja aðhaldsstigið hafa lítið breyst
Fjármálaráðuneytið segir að þar sem lakari afkomuhorfur 2024 og 2025 leiði ekki beint af ákvörðunum stjórnvalda þá hafi mat á aðhaldsstigi ríkisfjármála lítið breyst.
„Aðhaldsstigið er áfram metið í námunda við 1% af landsframleiðslu bæði árin. Það er áfram nægur bati til að styðja við hjöðnun verðbólgu og lækkun vaxta.“