Ríkissjóður seldi fyrstu og aðra hæð ásamt kjallara að Engjateig 3 í Reykjavík fyrir 275 milljónir króna í síðasta mánuði. Ásett verð á eigninni, sem var auglýst til sölu í október, var 349 milljónir króna, samkvæmt fasteignavefnum Fastanum.

Birt stærð húsnæðisins sem ríkið seldi er 1.002,6 fermetrar. Um er að ræða steinhús sem byggt var árið 1998.

Húsið hýsti áður starfsemi Hugverkastofunnar en stofnunin flutti um mitt ár 2023 í nýtt húsnæði að Katrínartúni 4.

Kaupandi er fasteignafélagið Íþaka fasteignir ehf., dótturfélag Mókolls ehf. sem er í eigu Péturs Guðmundssonar. Íþaka átti fyrir þriðju hæðina og hefur því eignast húsið í heild sinni.

Fasteignafélagið er nú með atvinnuhúsnæðið auglýst til leigu, allt húsið eða hluta laust til leigu. Í auglýsingunni kemur fram að atvinnuhúsnæðið sé alls um 1.200 fermetrar.