Ríkissjóður hefur gengið frá sölu á gamla Skólabæ að Suðurgötu 26 í Reykjavík á 435 milljónir króna staðgreitt. Fram­kvæmdasýslan - Ríkis­eignir (FSRE) auglýsti eignina til sölu í byrjun febrúar á 465 milljónir. Kaupverðið er því 30 milljónum króna undir ásettu verði.

Kaupendur eru Jón Aðalbjörn Jónsson og Runólfur Vigfús Jóhannsson. Þeir eiga aðra fasteign neðar í götunni, að Suðurgötu 14.

Jón Aðalbjörn og Runólfur Vigfús eru eigendur samlagsfélaganna Esko og Burðs, sem hafa verið með starfsemi á sviði heilbrigðisþjónustu. Auk þess eiga þeir fasteignafélagið Gula húsið ehf.

Þegar eignin var auglýst kom fram að gamli Skólabær, sem er friðað bárujárnsklætt timburhús þarfnist alls­herjar endur­nýjunar en aðeins ytra byrði sé friðað. Húsið hafi þó fengið gott viðhald og líti vel út að utan og innan. Farið var í viðhalds­fram­kvæmdir að utan árið 2021 og alls­herjar fram­kvæmdir að innan og utan árin 2011/2012.

Suður­gata 26 ásamt bílskúr er skráð sem 406,7 fermetrar en af því er íbúðarrými 385,3 fermetrar og sér­stæður bílskúr 21,4 fermetrar. Um er að ræða stein­steypt ein­býlis­hús byggt árið 1928 á rúm­góðri eignar­lóð með grónum garði og steyptri girðingu með­fram allri lóðinni.

Gamli Skóla­bær var eitt af fyrstu húsunum sem voru reist til að hýsa al­menna skóla­starf­semi í borginni. Í upp­hafi var húsið nýtt fyrir skóla­skrif­stofur Reykja­víkur­borgar og síðar Mennta­málaráðu­neytið en breytt í ein­býlis­hús árið 2006.

Húsið var hannað af Guðjóni Samúels­syni og Hjálmari Sveins­syni. Það var um tíma nýtt af kana­díska sendiráðinu fyrir sendi­herra.

Gamli Skólabær er á besta stað í miðborg Reykjavíkur.