Framkvæmdasýslan - Ríkiseignir (FSRE) hefur sett gömlu heilsugæslustöðina á Akureyri, Hafnarstræti 99-101, í sölu ásamt öllu því sem eigninni fylgir.
Upphaflega var húsið byggt sem deildaskipt verslunarmiðstöð með inngangi á 5. hæð við Gilsbakkaveg og á 1. hæð við Hafnarstræti 97. Byggingarár eignarinnar er 1961.
Í maí 2023 var tekin ákvörðun um að flytja stærsta hlutann af starfsemi HSN á Akureyri í Sunnuhlíð meðal annars vegna slæmra loftgæða í húsinu sem hentaði ekki starfsemi heilsugæslu.
Birt stærð er 1.926,5 fermetrar og er eignarhluturinn á fjórum hæðum og tvær lyftur hvor í sínum stigaganginum ásamt góðri vörulyftu sem er samnýtt með öðrum í húsinu.
Ríkið hefur óskað eftir tilboði í eignina en fasteignamat er 339,7 milljónir króna og brutabótamat er rúmar 860 milljónir.

„Eign á besta stað, miðsvæðis á Akureyri og spennandi verkefni fyrir verktaka eða laghenta að gera eignina íbúðarhæfa eða fyrir aðra starfsemi,” segir í fasteignaauglýsingu ríkisins.
Þar kemur einnig fram að komið sé að miklu viðhaldi utanhúss til að koma í veg fyrir áframhaldandi leka og skemmdir innanhúss.
Þak og múr hússins er í lélegu ástandi en þó mismunandi eftir hlutum. Húsið hefur fengið ágætis viðhald að innan en augljós rakamerki eru á ýmsum stöðum og gluggar í misjöfnu ástandi. Alla glugga í austurhluta hússins þarf að endurnýja og skoða þarf vel aðra hluta en einhverjir gluggar hafa verið endurnýjaðir. Gamlir ofnar eru á öllum hæðum.






