Fram­kvæmdasýslan - Ríkis­eignir (FSRE) hefur sett gömlu heilsugæslu­stöðina á Akur­eyri, Hafnar­stræti 99-101, í sölu ásamt öllu því sem eigninni fylgir.

Upp­haf­lega var húsið byggt sem deilda­skipt verslunar­miðstöð með inn­gangi á 5. hæð við Gils­bakka­veg og á 1. hæð við Hafnar­stræti 97. Byggingarár eignarinnar er 1961.

Í maí 2023 var tekin ákvörðun um að flytja stærsta hlutann af starf­semi HSN á Akur­eyri í Sunnu­hlíð meðal annars vegna slæmra loft­gæða í húsinu sem hentaði ekki starf­semi heilsugæslu.

Birt stærð er 1.926,5 fer­metrar og er eignar­hluturinn á fjórum hæðum og tvær lyftur hvor í sínum stiga­ganginum ásamt góðri vöru­lyftu sem er samnýtt með öðrum í húsinu.

Ríkið hefur óskað eftir til­boði í eignina en fast­eigna­mat er 339,7 milljónir króna og bruta­bóta­mat er rúmar 860 milljónir.

„Eign á besta stað, miðsvæðis á Akur­eyri og spennandi verk­efni fyrir verk­taka eða lag­henta að gera eignina íbúðar­hæfa eða fyrir aðra starf­semi,” segir í fast­eigna­aug­lýsingu ríkisins.

Þar kemur einnig fram að komið sé að miklu viðhaldi utan­húss til að koma í veg fyrir áfram­haldandi leka og skemmdir innan­húss.

Þak og múr hússins er í lé­legu ástandi en þó mis­munandi eftir hlutum. Húsið hefur fengið ágætis viðhald að innan en aug­ljós raka­merki eru á ýmsum stöðum og gluggar í misjöfnu ástandi. Alla glugga í austur­hluta hússins þarf að endur­nýja og skoða þarf vel aðra hluta en ein­hverjir gluggar hafa verið endur­nýjaðir. Gamlir ofnar eru á öllum hæðum.