Sagt var frá því í Viðskiptablaðinu í vikunni að félagið Frigus II hefði kært til Landsréttar úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá því fyrr í mánuðinum þar sem því var synjað að Sigurður Þórðarson, fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols, fengi að koma fyrir dóm sem vitni við aðalmeðferð í bótamáli félagsins gegn Lindarhvoli ehf. og íslenska ríkinu.
Í greinargerð Lindarhvols og íslenska ríkisins í Landsréttarmálinu er því unað að heimilt verði að boða þá Þór Hauksson fjárfesti og Valtýr Sigurðsson lögmann til að gefa skýrslu sem vitni við aðalmeðferð í málinu. Aftur á móti er þess krafist að hinn kærði úrskurður, þar sem því er synjað Sigurður Þórðarson fái að koma fyrir dóm sem vitni, verði staðfestur.
„Varnaraðilar telja það liggja ljóst fyrir að Sigurður Þórðarson er einungis boðaður sem vitni á grundvelli starfa sinna sem settur rikisendurskoðandi vegna vanhæfis reglulegs ríkisendurskoðanda á tilteknu tímabili. Það liggur fyrir í málinu að sóknaraðili hyggst spyrja vitnið um atriði sem vitnið hefur komist að í opinberu starfi sem settur ríkisendurskoðandi og því augljóst að það eru allt atriði sem leynt skuli fara með vísan til fyrrgreindra þagnarskylduákvæða laga.
Eins og áður var getið þá upplýsir sóknaraðili í kæru sinni að spyrja eigi vitnið um greinargerð setts rikisendurskoðanda. Um er að ræða stöðuskjal sem settur rikisendurskoðandi útbjó við lok starfa sinna. Skjalið sem hann á að vitna um er undirorpið þagnarskyldu,“ segir í fyrrnefndri greinargerð.