Arnar Þór Stefáns­son, hæstaréttar­lög­maður hjá LEX, segir ríkið eiga skýra endur­greiðslu­kröfu á stjórn­mála­flokka sem upp­fylltu ekki skil­yrði um skráningu í stjórn­mála­sam­taka­skrá en fengu engu síðar styrki frá ríkis­sjóði.

Fjár­málaráðu­neytið komst að þeirri niður­stöðu í gær, eftir að hafa aflað sér utan­aðkomandi álits, að ráðu­neytinu hafi brugðist leiðbeiningar­skyldu gagn­vart stjórn­mála­samtökum við út­hlutun fjár­muna og að óheimilt sé að aftur­kalla ákvarðanir eða krefjast endur­greiðslu.

Líkt og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum fékk Flokkur fólksins 240 milljónir króna í styrki frá ríkinu þrátt fyrir að vera ekki skráður sem stjórn­mála­flokkur heldur félaga­samtök. Flokkur fólksins situr nú í ríkis­stjórn en hefði fjár­málaráðherra ákveðið að endur­krefja flokkinn um féð hefði það getað haft veru­legar fjár­hags­legar af­leiðingar fyrir Flokk fólksins.

Arnar bendir á að skýrar laga­reglur um ábyrgð viðtak­enda fjárins hafi verið snið­gengnar í álitum ráðu­neytisins.

Hann segir að í lögum um starf­semi stjórn­mála­sam­taka nr. 162/2006 séu skýr ákvæði hvað þetta varðar en álitin tóku ekki um­fjöllunar. 13. gr. laganna, sem kveður á um refsingu fyrir ólög­mæta móttöku fram­laga, sé ekki tekin til um­fjöllunar í áliti ráðu­neytisins.

„Í greininni segir að hver sem taki við fram­lögum sem óheimilt er að veita viðtöku skv. 6. gr. laganna skuli sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Í 6. gr. segir m.a. að óheimilt sé að veita viðtöku fram­lögum frá opin­berum aðilum sem ekki rúmast innan ákvæða II. kafla laganna. Í þessum II. kafla laganna er m.a. ákvæðið sem hefur verið í brenni­depli í málinu, þ.e. 5. gr. a. um að skil­yrði út­hlutunar á fé úr ríkis­sjóði sé að viðkomandi stjórn­mála­samtök séu skráð skv. I. kafla C í lögunum, þ.e. sem stjórn­mála­samtök. Þá segir í 13. gr. laganna að refsa skuli fyrir brot, sem hér undir kunna að heyra, séu þau framin af ásetningi eða gá­leysi. Þetta at­riði hefur mikla þýðingu,“ segir Arnar.

Hann bendir á að viðtak­endur fjárins geti vart talist hafa verið í góðri trú, sér­stak­lega í ljósi þess að full­trúar stjórn­mála­flokkanna höfðu sjálfir aðkomu að setningu lagaákvæðanna sem um ræðir. Arnar bendir á að miðað við framan­greint kunni það því að hafa verið refsi­vert fyrir viðkomandi stjórn­mála­samtök að taka við fénu. Að minnsta kosti geti viðtak­endur fjárins ekki hafa verið í góðri trú.

„Þegar svo háttar til standa lög að mínum dómi til þess að aftur­kalla um­ræddar ákvarðanir og endur­krefja féð í ríkis­sjóð. Ríkis­sjóður eigi þessa endur­greiðslu­kröfu og beri að fylgja henni eftir. Það er á ábyrgð fjár­málaráðherra,“ segir Arnar.

Skúli Han­sen lög­maður tekur undir þessi sjónar­mið og dregur í efa að fjár­málaráðu­neytið hafi átt leiðbeiningar­skyldu gagn­vart stjórn­mála­flokkunum í þessu máli.

Hann segir það fjar­stæðu­kennt að stjórn­völd eigi að leiðbeina flokkum sem höfðu bein­línis sér­fræðiþekkingu á viðkomandi sviði.

„Það sem mér finnst áhuga­verðast í þessu er að í greinar­gerð með frum­varpi laga nr. 109/2021, þar sem þessum skil­yrðum var bætt við lög um fjár­mál stjórn­mála­sam­taka, kemur fram að fram­kvæmda­stjórar stjórn­mála­flokkanna hafi átt aðkomu að ritun frum­varpsins og m.a. verið skipaðir í nefnd sem vann að þessum breytingum. Þá sátu þing­menn þessara flokka á Alþingi og tóku þátt í um­ræðum og at­kvæða­greiðslu um þetta frum­varp.

Samt full­yrðir fjár­málaráðu­neytið að það hafi brugðist leiðbeiningar­skyldu sinni gagn­vart stjórn­mála­flokkunum. Hvaða leiðbeiningar­skyldu hefur stjórn­vald gagn­vart lögaðilum sem búa ekki bara yfir sérþekkingu á um­ræddu sviði, heldur tóku bein­línis þátt í að semja lagaákvæðið sem á reynir? Svarið hefði ég talið að væri aug­ljóst, þ.e. engin,“ skrifar Skúli Han­sen.