Arnar Þór Stefánsson, hæstaréttarlögmaður hjá LEX, segir ríkið eiga skýra endurgreiðslukröfu á stjórnmálaflokka sem uppfylltu ekki skilyrði um skráningu í stjórnmálasamtakaskrá en fengu engu síðar styrki frá ríkissjóði.
Fjármálaráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu í gær, eftir að hafa aflað sér utanaðkomandi álits, að ráðuneytinu hafi brugðist leiðbeiningarskyldu gagnvart stjórnmálasamtökum við úthlutun fjármuna og að óheimilt sé að afturkalla ákvarðanir eða krefjast endurgreiðslu.
Líkt og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum fékk Flokkur fólksins 240 milljónir króna í styrki frá ríkinu þrátt fyrir að vera ekki skráður sem stjórnmálaflokkur heldur félagasamtök. Flokkur fólksins situr nú í ríkisstjórn en hefði fjármálaráðherra ákveðið að endurkrefja flokkinn um féð hefði það getað haft verulegar fjárhagslegar afleiðingar fyrir Flokk fólksins.
Arnar bendir á að skýrar lagareglur um ábyrgð viðtakenda fjárins hafi verið sniðgengnar í álitum ráðuneytisins.
Hann segir að í lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka nr. 162/2006 séu skýr ákvæði hvað þetta varðar en álitin tóku ekki umfjöllunar. 13. gr. laganna, sem kveður á um refsingu fyrir ólögmæta móttöku framlaga, sé ekki tekin til umfjöllunar í áliti ráðuneytisins.
„Í greininni segir að hver sem taki við framlögum sem óheimilt er að veita viðtöku skv. 6. gr. laganna skuli sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Í 6. gr. segir m.a. að óheimilt sé að veita viðtöku framlögum frá opinberum aðilum sem ekki rúmast innan ákvæða II. kafla laganna. Í þessum II. kafla laganna er m.a. ákvæðið sem hefur verið í brennidepli í málinu, þ.e. 5. gr. a. um að skilyrði úthlutunar á fé úr ríkissjóði sé að viðkomandi stjórnmálasamtök séu skráð skv. I. kafla C í lögunum, þ.e. sem stjórnmálasamtök. Þá segir í 13. gr. laganna að refsa skuli fyrir brot, sem hér undir kunna að heyra, séu þau framin af ásetningi eða gáleysi. Þetta atriði hefur mikla þýðingu,“ segir Arnar.
Hann bendir á að viðtakendur fjárins geti vart talist hafa verið í góðri trú, sérstaklega í ljósi þess að fulltrúar stjórnmálaflokkanna höfðu sjálfir aðkomu að setningu lagaákvæðanna sem um ræðir. Arnar bendir á að miðað við framangreint kunni það því að hafa verið refsivert fyrir viðkomandi stjórnmálasamtök að taka við fénu. Að minnsta kosti geti viðtakendur fjárins ekki hafa verið í góðri trú.
„Þegar svo háttar til standa lög að mínum dómi til þess að afturkalla umræddar ákvarðanir og endurkrefja féð í ríkissjóð. Ríkissjóður eigi þessa endurgreiðslukröfu og beri að fylgja henni eftir. Það er á ábyrgð fjármálaráðherra,“ segir Arnar.
Skúli Hansen lögmaður tekur undir þessi sjónarmið og dregur í efa að fjármálaráðuneytið hafi átt leiðbeiningarskyldu gagnvart stjórnmálaflokkunum í þessu máli.
Hann segir það fjarstæðukennt að stjórnvöld eigi að leiðbeina flokkum sem höfðu beinlínis sérfræðiþekkingu á viðkomandi sviði.
„Það sem mér finnst áhugaverðast í þessu er að í greinargerð með frumvarpi laga nr. 109/2021, þar sem þessum skilyrðum var bætt við lög um fjármál stjórnmálasamtaka, kemur fram að framkvæmdastjórar stjórnmálaflokkanna hafi átt aðkomu að ritun frumvarpsins og m.a. verið skipaðir í nefnd sem vann að þessum breytingum. Þá sátu þingmenn þessara flokka á Alþingi og tóku þátt í umræðum og atkvæðagreiðslu um þetta frumvarp.
Samt fullyrðir fjármálaráðuneytið að það hafi brugðist leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart stjórnmálaflokkunum. Hvaða leiðbeiningarskyldu hefur stjórnvald gagnvart lögaðilum sem búa ekki bara yfir sérþekkingu á umræddu sviði, heldur tóku beinlínis þátt í að semja lagaákvæðið sem á reynir? Svarið hefði ég talið að væri augljóst, þ.e. engin,“ skrifar Skúli Hansen.