Samanlagt markaðsvirði Íslandsbanka og Kviku banka er nú um 323 milljarðar króna. Kvika tilkynnti fyrir skömmu um að stjórn félagsins hefði óskað eftir samrunaviðræðum við stjórn Íslandsbanka. Sameinað félag yrði það þriðja stærsta í Kauphöll Íslands, en Íslandsbanki er fyrir þriðja verðmætasta félagið í Kauphöllinni. 

Íslandsbanki er nú metinn á 234 milljarða króna en Kvika banki tæplega 89 milljarða króna. Því er hlutur Íslandsbanka um 72,5% af samanlögðu markaðsvirði félaganna en hlutur Kviku banka um 27,5%.

Ríkissjóður á nú langstærsta einstaka hlut félaganna tveggja en 42,5% hlutur ríkisins í Íslandsbanka er tæplega 100 milljarða króna virði. Í sameinuðu félagi má áætla að það samsvari tæplega þriðjungshlut.

Í forsendum fjárlaga þessa árs var hins vegar gert ráð fyrir að hlutur ríkisins í Íslandsbanka yrði seldur að fullu á árinu. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði við Viðskiptablaðið við kynningu fjárlaga í september á síðasta ári að almennt útboð væri sennilega heppilegasta söluaðferð á eftirstandandi hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka.

„Varðandi sjálft sölufyrirkomulagið, þá finnst mér öll rök hníga að því að farið verði í almennt útboð en eins og var rætt í aðdraganda sölunnar núna síðast þá hefur það fyrirkomulag bæði kosti og galla,“ sagði Bjarni.

Lífeyrissjóðir með nærri helmingshlut

Áætla má að íslenskir lífeyrissjóðir myndu eiga minnst 42% hlut í sameinuðu félagi miðað við lista við hluthafalista fyrirtækjanna sem nær yfir alla hluthafa sem eiga meira en 1%. Framangreint hlutfall nær ekki utan um hlut lífeyrissjóða sem eiga minna en 1% hlut í bönkunum.

Afganginn eiga ýmsir verðbréfasjóðir, fjármálafyrirtæki og einkafjárfestar. Stærsti einstaki einkafjárfestirinn í núverandi hluthafahópum bankanna tveggja eru Stoðir sem eiga 6,5% hlut í Kviku banka sem er um 6 milljarða króna virði. Stærsti einstaki erlendi aðilinn er svo bandaríska fjárfestingafélagið Capital Group sem á 4,89% hlut í Íslandsbanka sem er um 11 milljarða króna virði.

Hluthafalista bankanna tveggja má sjá hér að neðan.