Ríkissjóður var rekinn með 130 milljarða halla árið 2021 samanborið við 144 milljarða halla árið á undan. Afkoma ríkissjóðs var rúmum hundrað milljörðum betri en gert var ráð fyrir í fjárlögum, aðallega þar sem tekjur voru talsvert umfram spár. Þetta kemur fram í tilkynningu fjármálaráðuneytisins en ríkisreikningur fyrir árið 2021 var birtur í dag.
Tekjur án fjármunatekna, einkum tekjur af sköttum og tryggingagjöldum, jukust um 69 milljarða á milli ára og námu samtals 871 milljarði. Tekjur af virðisaukaskatti jukust um 44 milljarða á milli ára. Fjármagnstekjuskattur jókst um 11 milljarða, tryggingagjald um 9 milljarða. Tekjur af bankaskatti minnkuðu um 6 milljarða frá fyrra ári en veiðigjöld jukust um 3 milljarða. Aðrir tekjustofnar eru sagðir hafa skilað áþekkum tekjum og árið áður.
Matsbreytingar eigna námu 76 milljörðum, sem skýrist af virðismatsbreytingu eignarhluta í Landsbankanum og Íslandsbanka sem eru nú metnir á innra virði en í voru í upphafi árs metnir á 80% af innra virði.
Gjöld fyrir fjármagnsliði námu 1.078 milljörðum og hækkuðu um 88 milljarða á milli ára. Fjármálaráðuneytið áætlar að beinn kostnaður vegna Covid-19 faraldursins hafi numið 68 milljörðum.
Heildareignir ríkissjóðs í árslok 2021 voru 2.784 milljarðar, skuldir voru 2.618 milljarðar og eigið fé 166 milljarðar.
Afkoman hundrað milljörðum betri en áætlað var
Rekstrarafkoma ríkisreiknings er birt á grunni reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila (IPSAS) en heildarafkoma í fjármálaáætlun og fjárlögum er birt samkvæmt hagskýrslustaðli (GFS).
Í fjárlögum ársins 2021 var gert ráð fyrir neikvæðri heildarafkomu uppá 326 milljarða króna. Samkvæmt afkomuspá sem birt var í frumvarpi til fjáraukalaga í desember 2021 var áætlað að afkoman yrði neikvæð um 294 milljarða. Þegar niðurstaða ríkisreiknings er aðlöguð að GFS-staðlinum reyndist heildarafkoma vera neikvæð um 225 milljarða, sem er um fjórðungi betri en útkomuspáin í desember.
„Geta ríkissjóðs til að bregðast við með þessum hætti byggðist á lækkun skulda hins opinbera undanfarinn áratug og sterkum efnahagsreikningum heimila og fyrirtækja. Á sama tíma hafði umgjörð hagstjórnarinnar verið styrkt til muna,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í tilkynningu. Bætir hann við að nú reyni á að nýta aukin efnahagsumsvif til að draga úr halla hins opinbera og stöðva skuldasöfnun.
„Hægja þarf á vexti útgjalda og treysta grunninn á ný til að verja kröftuga uppbyggingu síðustu ára, en ekki síður til að geta mætt áskorunum framtíðar. Mikil tækifæri felast í bættum rekstri, nýtingu nýrrar tækni og stafvæðingu til að veita enn betri þjónustu án verulegs útgjaldavaxtar,“ segir Bjarni.