Nýkynnt fjármálaáætlun fyrir árin 2026-2030 gerir ráð fyrir að árið 2027 verði ríkissjóður hallalaus og hið opinbera frá og með árinu 2028. Hvoru tveggja er ári fyrr en fyrri áætlun gerði ráð fyrir, að því er segir í tilkynningu fjármálaráðuneytisins.

Þar segir að á tímabili fjármálaáætlunar sé gert ráð fyrir hóflegum útgjaldavexti ríkissjóðs, að jafnaði 1,6% að raunvirði á ári.

Fjármálaáætlun styðjast nú við nýja stöðugleikareglu. Í grunninn felst í stöðugleikareglu að skilyrt verði að útgjöld ríkissjóðs (A-1 hluta) skuli vaxa að hámarki um 2% að raunvirði að ári. Raunvöxt útgjalda umfram 2,0% þurfi að fjármagna með samsvarandi ráðstöfunum til tekjuöflunar.

Framlög til heilbrigðismála nema tæplega þriðjungi af heildarútgjöldum ríkissjóðs og aukast um 57 milljarða króna á tímabili fjármálaáætlunarinnar.

Framlög til félags-, húsnæðis- og tryggingamála aukast um 38 milljarða á tímabili áætlunarinnar. Kostnaður vegna nýs örorkulífeyriskerfis vegur þar þyngst eða um 18 milljarða á ársgrundvelli.

Framlög til samgöngumála eru aukin úr 66 milljarða í 74 milljarða króna á tímabilinu. Þar af fara 7 milljarðar til vegabóta, viðhalds og þjónustu strax á árinu 2026.

Útgjöld alltaf verið umfram áætlun

Í tilkynningunni segir að staðreyndin sé sú að allt frá því að fyrsta fjármálaáætlunin var lögð fram samkvæmt þeim lögum sem nú gilda hafi útgjöld reynst verulega meiri er áætlun þess tíma gerði ráð fyrir.

„Það hefur m.a. leitt til þess að ekki hefur verið nægt borð fyrir báru þegar áföll dynja yfir. Nú er lögð áhersla á að þessi saga endurtaki sig ekki.“

Mynd tekin úr fjármálaáætlun.