Ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna undir forystu Bjarna Benediktssonar hefur runnið sitt skeið. Þetta staðfesti Bjarni á blaðamannafundi sem fram fer þessa stundina í Stjórnarráðinu.

Hann hefur upplýst formenn samstarfsflokka sinna í ríkisstjórninna um að hann muni leggja til við forseta þingrof og kosningar fari þá fram í lok nóvember.

Í ræðu Bjarna kom fram að í vor, er ríkisstjórnarsamstarfið var endurnýjað undir hans forystu, hafi verið lögð áhersla á þrjú viðfangsefni; efnahagsmálin, hælisleitendamálin og orkumálin. Sannarlega hafi náðst árangur í efnahagsmálunum með lækkandi verðbólgu og verðbólguvæntingum. Þá sé Seðlabankinn byrjaður að lækka vexti og væntingar uppi um að vaxtalækkunarferli geti haldið áfram.

Á vorþinginu hafi náðst mikilvægur áfangi í hælisleitendamálum með samþykkt frumvarpa sem gerðu stjórnvöldum betur kleift að takast á við þá miklu áskorun sem umsóknir um hæli á Íslandi eru fyrir stjórnvöld. Auk þess hafi mikilvæg lögreglulög verið kláruð sem tryggir vernd gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi.

Þá hafi mikilvægar skipulagsbreytingar verið gerðar á vormánuðum sem muni gagnast inn í framtíðina til að auka skilvirkni í ákvarðanatöku vegna grænnar orkunýtingar til framtíðar.

„Ég sá strax eftir sumarþingið að við höfðum gert rétt með því að halda áfram að binda um þau mál sem mikil vinna hafði verið lögð í og ljúka þeim farsællega á vorþinginu. Þegar komið er inn á haustið hins vegar er vaxandi ágreiningur innan stjórnarflokkanna um ákveðin grundvallarmál. Þrátt fyrir að náðst hafi árangur er krafa okkar í Sjálfstæðisflokknum um það að menn láti aldrei verk úr hendi falla heldur haldi áfram að sækja árangur, sérstaklega á sviðum sem að samfélagið okkar í dag kallar eftir að taki breytingum í takt við aðstæður.“

Uppi sé ágreiningur um aðgerðir í hælisleitendamálum, eins og öllum hafi verið ljóst. Þá hafi stjórnin lengi átt í ágreiningi um framtíðarsýn varðandi orkunýtingu.

Tillögur frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hafi setið fastar í ríkisstjórninni um langt skeið um næsta ramma. Það hafi verið áhyggjuefni á haustmánuðum.

Þegar litið sé yfir sviðið og skoðað önnur mál sem mikilvægt væri fyrir ríkisstjórnina að klára fyrir kosningar sér Bjarni ekki fram á að ásættanleg niðurstaða geti náðst. Þetta eigi t.d. við frumvarp um lagareldi og fleiri málaflokka.

Reynt hafi verið að finna lausn á þessum áskornunum á fundum með formönnum hinna stjórnarflokkanna.

„En ég hef komist að þeirri niðurstöðu fyrir mitt leyti að það séu ekki líkur á því að farsæl niðurstaða náist um þessi mál og kemst þess vegna að þessari niðurstöðu.“

Bjarni sagði best fara á því að hver ríkisstjórn sé þannig samsett að hún hafi sameiginlega sýn á þessa helstu lykilþætti. Á það hafi skort eftir því sem verkefnin hafi verið að breytast yfir kjörtímabilið.

„Nú er svo komið að ég met stöðuna þannig að farsælast sé, fyrir þjóðina en líka fyrir stjórnarflokkana, að ganga til kosninga og veita þjóðinni það vald að svara þessum stóru spurningum sem að flokkarnir geta hver fyrir sig kynnt fyrir kjósendum sýna framtíðarsýn á. Ef allt gengur eins og ég er hér að leggja upp með munum við Íslendingar ganga til kosninga undir lok nóvembermánaðar.“

Bjarni væntir þess að þrátt fyrir boðun um kosningar og þingrof muni ríkisstjórnin starfa fram að kosningum. Ef ekki sé samstaða um það meðal flokkanna muni hann biðjast lausnar og skipuð starfsstjórn en það eigi eftir að koma í ljós. Í dag gangi hann út frá því að þing verði rofið og boðað til kosninga.

Hann hafi þegar haft samband við Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, og þau muni funda á morgun.