Snorri Más­son, þing­maður Mið­flokksins og nefndar­maður í framtíðar­nefnd Alþingis, segir að for­vitni­legu frum­varpi hafi verið dreift á Alþingi í dag þar sem ríkis­stjórnin hyggst festa hina „nútíma­legu framtíðar­nefnd“ í sessi.

„Hin yfir­lýsta hag­ræðingar­stjórn hefur gert hlé á hag­ræðingar­störfum og ákveðið að fara í hina áttina í einu mikilvægu máli. Þar er það sjálfur stjórnar­meiri­hlutinn sem nýtur góðs af og upp­sker meiri launuð nefndar­störf. Nú á að festa í sessi hina nútíma­legu „framtíðar­nefnd“ út kjörtíma­bilið, í stað þess að leyfa henni að renna sitt skeið á enda um áramót líkt og til stóð að óbreyttu,“ skrifar Snorri.

Ferðalög, fjör og launahækkanir

Um leið á að veita for­manni nefndarinnar sér­staka tíu pró­senta launa­viðbót, sem hefur ekki verið, en kemur nú í hlut nefndar­for­manns Jóns Gnarr sem er jafn­framt þing­maður Viðreisnar.

Framtíðar­nefndin var stofnuð árið 2018 og hefur m.a. unnið að sviðs­mynda­greiningum um þróun sam­félagsins til lengri tíma, m.a. með áherslum á lofts­lags­mál, lýðræði og mann­réttindi.

Þrátt fyrir metnaðar­fullar um­fjallanir og ráð­stefnur hefur gagn­semi hennar þó verið dregin í efa af full­trúum úr fleiri en einum stjórn­mála­flokki.

„Frá því að nefndin, sem hefur verið lýst sem gjöf Vinstri grænna til Pírata, hóf störf árið 2018 hefur margt verið brallað.

Ófáar mál­stofurnar hafi verið haldnar með ófáum hagaðilum um allt frá lýðræði og mann­réttindum og til lofts­lags­mála. Farið í nokkrar skemmti­legar ferðir,“ skrifar Snorri.

Snorri segir að þing­menn úr öllum flokkum séu sammála um að gagn nefndarinnar hafi því miður verið lítið sem ekkert.

„Þar með er ekki gert lítið úr góðum pælingum góðs fólks, eins og til dæmis þeirri sviðs­mynda­greiningu í síðustu framtíðar­nefndar­skýrslu að ef Ís­lendingar næðu að gerast „kyndil­berar í lofts­lags­málum“ myndi íbúa­sam­setning landsins mögu­lega þróast í þá átt að hér myndi ríkja fjöl­menning þar sem við myndum njóta „fjölgunar inn­flytj­enda sem aðhyllast grænar lausnir.“ Óneitan­lega er það ein sviðs­mynd.“

Snorri segir að ekkert af þessu breyti þó þeirri stað­reynd að starf nefndarinnar hafi verið í hæsta máta ómark­visst frá upp­hafi.

„Kröftum okkar alþingis­manna og enn fremur fjár­munum skatt­greiðenda er betur varið í eitt­hvað annað miklu gagn­legra en framtíðar­nefnd. Þessari til­raun ætti að ljúka hér (P.S. Þessi af­staða okkar Mið­flokks­manna er al­farið reist á mál­efna­legum grunni og tengist ekki á nokkurn hátt von­brigðum okkar með að nefndar­menn hafi hafnað til­lögu okkar á fyrsta fundi um að breyta nefndinni í fortíðar­nefnd)“ skrifar Snorri.