Matvöruverslunin Prís leggur til að ríkisstjórnin setji það sem reglu að allar ríkisstofnanir á höfuðborgarsvæðinu versli við ódýrustu matvöruverslunina hverju sinni eða samkvæmt síðustu verðkönnun ASÍ.

Þetta kemur fram í umsögn Prís við samráðsverkefni nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins Verum hagsýn í rekstri ríkisins. Borist hafa yfir 2.600 umsagnir en Prís er fjórða fyrirtækið til að skila inn umsögn. Hin fyrirtækin sem sendu inn umsagnir eru Útgerðarfélagið Burst ehf., Bambahús ehf. og Járnavirkið ehf.

Prís, sem opnaði verslun í Turninum við Smáratorg 3 í Kópavogi í ágúst sl., er með yfirlýst markmið um að bjóða upp á lægsta verðið á matvörumarkaðnum. Bent er á að Prís hafi verið Prís verið ódýrasta búðin í öllum könnunum ASÍ frá opnun.

Í umsögn Prís segist verslunin vera með frábært sparnaðarráð sem fjöldi Íslendinga hefur nú þegar tileinkað sér í hverri viku.

„Við leggjum til að ríkisstjórnin setji það sem reglu að allar ríkisstofnanir á höfuðborgarsvæðinu versli við ódýrustu matvöruverslunina hverju sinni eða samkvæmt síðustu verðkönnun ASÍ.

Með því stuðlar ríkisstjórnin ekki bara að aukinni samkeppni heldur hvetur til lækkun á verðbólgu og lægri vöxtum en bæði bætir strax hag heimilanna.“

Umsögn Prís.