Hagsmunasamtök heimilanna (HH) fengu 14,1 milljón króna í ríkisstyrk á síðustu tveimur árum. Þar á meðal fengu samtökin 2 milljóna greiðslu frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu vegna þjónustusamnings sem var í gildi frá 1. júní til 31. desember 2022, sem felst m.a. í fræðslu til almennings um húsnæðisskuldbindingar og réttindi lántakenda.

Í ársskýrslu HH, sem birt var í ársbyrjun 2022, segir Ásthildur Lóa að samtökin hafi frá upphafi fengið 30 milljónir „af skúffufé ýmissa ráðherra“. Þar af fengu þau 10 milljónir króna árið 2021 frá félags- og barnamálaráðuneytinu en Ásmundur Einar Daðason var ráðherra málaflokksins á þessum tíma.

Eitt helsta baráttumál HH, sem voru stofnuð árið 2009, er afnám verðtryggingar. Þá veita samtökin félagsmönnum sínum „óháða ráðgjöf um viðskipti sín á fjármálamarkaði, með hliðsjón af vernd í löggjöfinni og reynslu samtakanna af efnahagshruninu“.

Samtökin telja að það halli mikið á sig sé horft til Umboðsmanns skuldara, ríkisstofnunar sem þau bera sig saman við, sem hafi kostað ríkið um 6 milljarða frá hruni. HH segja að álíka margir hafi leitað til sín frá hruni og Umboðsmaður skuldara hefur veitt liðsinni.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, sem var kjörin á þing haustið 2021 fyrir Flokk fólksins, hefur verið formaður HH frá árinu 2017 og gegnir því hlutverki enn.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um Hagsmunasamtök heimilanna í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður HH og þingmaður Flokks fólksins, við undirritun þjónustusamnings ráðuneytisins við samtökin um neytendavernd og fjármálafræðslu síðasta sumar.