Orri Hauksson, fyrrverandi forstjóri Símans, er í ítarlegu viðtali í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar sem kom út fyrir skömmu. Í viðtalinu fer Orri um víðan völl og ræðir m.a. um fjölmiðlamarkaðinn, þar sem einareknir miðlar hafa um langt skeið átt undir högg að sækja.
Aðspurður segir Orri að vandamál á fjölmiðlamarkaði séu annars vegar alþjóðleg, vegna sífellt aukins segulmagns félagsmiðla gagnvart auglýsingafé, en einnig sé séríslenskur andbyr. „Fyrst og fremst er það ójöfn samkeppnisstaða einkarekinna miðla gagnvart Ríkisútvarpinu,“ segir hann og bætir við:
„Það er mjög óalgengt í nágrannalöndum okkar að ríkismiðill sem fær verulegar fjárhæðir beint frá skattgreiðendum sé einnig mjög fyrirferðarmikill á auglýsingamarkaði. Þessi skekkja hefur lengi verið rædd en af einhverri ástæðu hefur stjórnmálafólk ekki treyst sér til að taka á henni. Augljóst fyrsta skref til að rétta samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla í samkeppni við ríkið væri að afmarka mjög auglýsingasölu Ríkisútvarpsins eða láta alveg af henni.“
Til að bregðast við ójafnri stöðu á fjölmiðlamarkaði hafi hið opinbera svo bætt gráu ofan á svart með því að gera einkarekna fjölmiðla að bótaþegum hjá ríkinu, með því að setja á fót sérstakt styrkjakerfi. „Svo ákveður eitthvert opinbert batterí hvaða fjölmiðlar eru hæfir til að hljóta styrk og hverjir ekki. Það blasir við hve óheppilegt þetta er, því auk útgjalda skattgreiðenda við þetta styrkjakerfi kann tilvist þess að leiða til þess að einkareknir miðlar verði hikandi við að gagnrýna styrkveitendur sína. Fjórða valdið svokallaða á ekki að vera botnlangi út úr ríkinu.“
Orri bendir á að ef gengið sé út frá því að enn sé þörf fyrir ríkisrekinn fjölmiðil í nútímasamfélagi, væri eðlilegra að sá miðill myndi einblína á íslenska menningu og svið sem einkareknir fjölmiðlar eru ekki að sinna. „Það eru fleiri nýjar íslenskar sjónvarpsþáttaraðir sýndar árlega í Sjónvarpi Símans en á Ríkisútvarpinu, sem hlýtur marga milljarða árlega á fjárlögum,“ segir Orri. Hann segist stoltur yfir að Síminn, sem enga fjölmiðlastyrki hafi þegið, hafi tekist að sinna þessum hluta menningar betur en ríkismiðlinum
Að sama skapi sé óheppilegt að um leið og nýjungar komi fram á fjölmiðlamarkaði sé ríkið fljótt að skerast í leikinn og hefja beina samkeppni við frumkvöðlana. Dæmi um þetta séu hlaðvörp, miðlunarform sem hefur notið mikilla vinsælda á síðustu árum. Ríkisútvarpið brást við þeirri þróun með því að stofna eigin hlaðvörp sem eiga svo í beinni samkeppni við hlaðvörp á vegum smærri fjölmiðla og einyrkja.
Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.